Innlent

Benedikt Hákon þarf að játa sig sigraðan gegn Reykjavíkurborg

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dóra S. Bjarnason prófessor og móðir Benedikts Hákonar, var í ítarlegu viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins í nóvember. Þar kom meðal annars fram að Benedikt er mikill tónlistarunnandi.
Dóra S. Bjarnason prófessor og móðir Benedikts Hákonar, var í ítarlegu viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins í nóvember. Þar kom meðal annars fram að Benedikt er mikill tónlistarunnandi. Vísir/Stefán
Reykjavíkurborg var í Hæstarétti í dag sýknuð af kröfu Benedikts Hákonar Bjarnasonar, fjölfatlaðs manns. Benedikt hefur síðustu fjögur ár barist fyrir nauðsynlegri aðstoð allan sólarhringinn með fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar en hefur ítrekað verið synjað og fór hann því með málið fyrir dómstóla. Málið tapaðist í héraði í nóvember síðastliðnum en því var áfrýjað til Hæstaréttar sem kvað upp dóm sinn í dag.

Kröfur Benedikts voru tvíþættar, annars vegar að felld yrði úr gildi ákvörðun Reykjavíkurborgar um synjun á sólarhringsþjónustu á heimili hans og hins vegar krafa um miskabætur, alls ein og hálf milljón. Það er í ljósi þess að aðstandendur Benedikts og starfsmenn hafa aðstoðað hann launalaust á næturnar síðustu ár. Reykjavíkurborg hefur hingað til útvegað honum aðstoðarfólki í um 16-19 klukkustundir á sólarhring.

Í dómi Hæstaréttar, sem lesa má hér, kemur fram að ekki sé hægt að fallast á með Benedikt Hákoni að synjun Reykjavíkurborgar á kröfu hans hafi ekki verið nógu vel kynnt. Þá var ekki samþykkt að Benedikt hefði ekki átt kost á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Var því fallist á með héraðsdómi að ekkert væri komið fram sem benti til þess að Reykjavíkurborg hefði brotið gegn reglum stjórnsýsluréttar við meðferð á kröfu Benedikts um sólarhringsaðstoð á heimili hans.

Þá var ekki talið að Reykjavíkurborg hefði komið þannig fram við Benedikt Hákon við meðferð málsins að í því hefði falist ólögmæt meingerð sem veitti honum rétt til miskabóta. Gjafsóknarkostnaður Benedikts og þóknun lögmanns greiðist úr ríkissjóði.




Tengdar fréttir

Benedikt fær ekki nauðsynlega aðstoð

Dómur féll í máli Benedikts Hákonar Bjarnasonar, fjölfatlaðs manns sem síðustu ár hefur barist fyrir nauðsynlegri aðstoð allan sólarhringinn.

Leitar allra leiða til að finna lausn fyrir son sinn

Dóra S. Bjarnason hefur ítrekað reynt að fá lífsnauðsynlega aðstoð fyrir Benedikt Hákon Bjarnason, fjölfatlaðan son sinn, án árangurs. Hún hefur alið hann ein upp og með hækkandi aldri getur hún ekki veitt honum þá aðstoð sem hann þarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×