Viðskipti innlent

Samfélagsmiðlar draga tvímælalaust karla að

Sæunn Gísladóttir skrifar
Rannveig Kristjánsdóttir, verslunarstjóri JÖR, segir að samfélagsmiðlar dragi að karlmenn í verslunina.
Rannveig Kristjánsdóttir, verslunarstjóri JÖR, segir að samfélagsmiðlar dragi að karlmenn í verslunina. Vísir/Anton
Sala á herrafötum og fylgihlutum hefur töluvert sótt í sig veðrið erlendis og í íslenskum verslunum undanfarin misseri. Kaupmenn telja meðal annars að samfélagsmiðlar eins og Instagram og Twitter hafi stuðlað að þessari þróun.

Rannveig Kristjánsdóttir, verslunarstjóri JÖR, segir herrafatasölu hafa færst í aukana frá því að verslunin var opnuð fyrir tveimur árum. „Ég myndi segja það, bæði byggist upp kúnnahópur sem kemur aftur og aftur. Herrafatnaður finnst mér vera að færast í aukana almennt,“ segir Rannveig.

Verslunarrýminu er skipt jafnt í tvennt milli herra- og dömufata. Rannveig segir sölu dömu- og herrafata nokkuð jafna.

„Það getur verið árstíðabundið hvernig salan fer. Maður finnur að suma mánuði er meira að seljast af jakkafötum en í dömudeildinni, en yfir árið held ég að þetta sé jafnt,“ segir Rannveig. Hún hefur ekki fundið fyrir sprengingu í fylgihlutasölu. Hún telur þó alveg tvímælalaust að samfélagsmiðlar dragi að karlmenn.

„Maður sér áhrifin svo skýrt á því sem við erum að auglýsa á samfélagsmiðlum hverju sinni, maður finnur það bara strax koma í sölunni. Þetta er alveg ótrúlega máttugt tæki í rauninni,“ segir Rannveig.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×