Dómi yfir hollenskri konu, Mirjam Foekje van Twuijer, hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar. Héraðsdómur Reykjaness dæmdi van Twuijer í ellefu ára fangelsi í liðinni viku fyrir smygl á tæplega tuttugu kílóum af fíkniefnum hingað til lands í apríl síðastliðnum.
Um er að ræða einn þyngsta fíkniefnadóm sem fallið hefur hér á landi en refsiramminn er 12 ár. Dómurinn hefur vakið mikla athygli og hafa ýmsir gagnrýnt hversu þungur hann er en sannað þótti í málinu að konan var burðardýr.
Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt dóminn er Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Þá ræddi Vísir við Helga Gunnlaugsson, afbrotafræðing, um málið sem sagði dómafordæmi hafa leitt dómara í ógöngur þegar kæmi að fíkniefnamálum.
