Samkoman fór að mestu friðsamlega fram, en til einhverra átaka kom á milli lögreglu og fólks sem sögðu stjórnvöld ekki hafa gripið til viðeigandi öryggisráðstafanna daginn örlagaríka, sem og þeirra sem vildu komast að sprengjusvæðinu til að leggja þar blóm til minningar um hina látnu.
Forsætisráðherra landsins, Ahmet Davutoglu, sagði í morgun að sönnunargögn bentu til þess að um tvær sjálfsmorðssprengjur hafi verið að ræða. Sprengjurnar sprungu skammt frá aðallestarstöð borgarinnar, en fólk safnaðist þar saman til að taka þátt í friðarsamkomu sem skipulögð var af vinstri sinnuðum hópum. Hóparnir hafa krafist þess að átökum milli uppreisnarhópa tyrkneskra Kúrda og tyrkneskra yfirvalda linni.
Enginn hefur lýst árásinni á hendur sér en tyrknesk stjórnvöld segja Íslamska ríkið og kúrdíska vígamenn liggja undir grun.