Innlent

Ánægðust með að nú verður til kæruleið í kynferðisbrotamálum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kolbrún Benediktsdóttir er nýskipaður héraðssaksóknari.
Kolbrún Benediktsdóttir er nýskipaður héraðssaksóknari. vísir/Valli
„Þetta leggst bara vel í mig. Þetta er spennandi og mjög gaman að koma að stofnun nýs embættis,“ segir Kolbrún Benediktsdóttir sem skipuð var varahéraðssaksóknari í gær.

Embætti héraðssaksóknara tekur til starfa um áramótin þegar embætti sérstaks saksóknara verður lagt niður en Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, verður héraðssaksóknari.

Mál ríkissaksóknara færast yfir til héraðssaksóknara

Kolbrún hefur síðastliðin 10 ár verið saksóknari hjá ríkissaksóknara en skiptir nú um vettvang. Í raun er þó ekki um mikla breytingu á starfi hennar að ræða.

„Embætti héraðssaksóknara mun annars vegar sjá um rannsókn á stórum efnahagsbrotum sem verið hafa hjá sérstökum saksóknara og svo hins vegar öll þau mál sem ríkissaksóknari hefur verið með ákæruvaldið í. Þar undir eru meðal annars kynferðisbrot, ofbeldisbrot, stór fíkniefnamál og manndráp,“ segir Kolbrún.

Þá munu brot gegn valdstjórninni vera rannsökuð og saksótt hjá héraðssaksóknara auk þess sem kærur á hendur lögreglunni munu vera á borði embættisins.

Kolbrún segir stærstu breytingu á starfi sínu væntanlega þá að nú muni hún ekki flytja mál í Hæstarétti.vísir/gva
Starfsemi ríkissaksóknara breytist mikið

„Stærsta breytingin fyrir mig er því að ég mun hætta að flytja mál í Hæstarétti þar sem öll sakamál sem ganga þangað verða áfram hjá ríkissaksóknara. Svo fæ ég auðvitað nýtt samstarfsfólk en hvað málin sjálf varðar er þetta kannski ekki svo mikil breyting.“

Það er hins vegar ljóst að starfsemi ríkissaksóknara mun breytast mikið og segist Kolbrún vonast til þess að embættið muni hafa meira svigrúm til að sinna ýmsu af því sem ekki hefur verið hægt að gera vel hingað til vegna skorts á fjármunum og mannskap.

„Ríkissaksóknari mun ennþá sinna eftirliti annars vegar með héraðssaksóknara og hins vegar lögreglustjórunum og vonandi verður hægt að sinna því betur. Þá á embættið að sjá um menntunarmál fyrir nýja ákærendur og endurmenntun svo eitthvað sé nefnt.“

Gert er ráð fyrir að héraðssakóknari verði til húsa þar sem sérstakur saksóknari er nú. Vísir/Valli
Eðliegt að hægt sé að skjóta alvarlegum málum til æðra stjórnvalds

Kolbrún segir þó stærstu breytinguna að sínu mati vera þá að nú sé búin til kæruleið í kynferðisbrotamálum.

„Nú verður ákæruvaldið í kynferðisbrotamálum hjá héraðssaksóknara og ef að hann fellur niður kynferðisbrotamál er hægt að kæra þá ákvörðun til ríkissaksóknara. Það hefur ekki verið hægt hingað til þar sem ríkissaksóknari sjálfur hefur farið með ákæruvaldið í kynferðisbrotamálum. Ég er ánægðust með þetta enda er það eðlilegt að það sé hægt að skjóta svona málum til æðra stjórnvalds,“ segir Kolbrún.

Gert er ráð fyrir að embætti héraðssaksóknara verði til húsa að Skúlagötu 17 þar sem embætti sérstaks saksóknara er nú. Aðspurð hvort að mikið af mannskap muni færast á milli ríkissaksóknara og héraðssaksóknara segir Kolbrún að það verði nú skoðað.

„Það er gert ráð fyrir því í lögunum að það megi bjóða þeim starfsmönnum sem nú starfa hjá sérstökum saksóknara og ríkissaksóknara störf hjá nýju embætti. Nú þarf bara að fara í það að skoða hvernig það verður gert og hvernig þetta verður útfært; hvað það verða margir lögfræðingar, lögreglumenn, saksóknarar og aðstoðarsaksóknarar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×