Viðskipti innlent

Arion banki: Óheppilegt að selja til valinna viðskiptavina á lægra gengi skömmu fyrir útboð

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Höfuðstöðvar Arion banka.
Höfuðstöðvar Arion banka. Vísir/Pjetur
Arion banki segir að sala á 31 prósent hlut sínum í Símanum hafi verið í samræmi við stefnu bankans, verðlagningin hafi verið eðlileg en hægt sé að taka undir gagnrýni á það að valinn hópur viðskiptavina bankans hafi fengið að kaupa hlutabréf í Símanum á lægra gengi en útboðsgengi. Haldinn var starfsmannafundur í Arion banka þar sem afstaða bankans var kynnt starfsmönnum.

Ekki heppilegt að selja til valinna viðskiptavinna skömmu fyrir útboð á lægra gengi

Í tilkynningu frá Arion banka segir að það sé í samræmi við stefnu stjórnar bankans að félögum í óskyldum rekstri skuli eftir föngum vera komið í sem breiðast eignarhald og þau skráð í kauphöll. Arion banki telur að salan á hlut sínum í Símanum hafi tekist vel en verklagi varðandi sölu á stærri eignarhlutum verði breytt í kjölfar gagnrýni.

„Sú gagnrýni að ekki hafi allir setið við sama borð hefur ekki farið framhjá stjórnendum bankans. Ekki var heppilegt að selja til viðskiptavina bankans svo skömmu fyrir útboðið á gengi sem svo reyndist nokkuð lægra en niðurstaða útboðsins. Bankinn vanmat hina miklu eftirspurn sem raun varð á. Þessi tilhögun er til skoðunar í bankanum og verður tekið mark á gagnrýninni,“ segir í tilkynningunni.

Horft framhjá verðþróun á hlutabréfamarkaði

Fjárfestahópur og stjórnendur fengu í ágúst að kaupa 5 prósenta hlut í Símanum á genginu 2,5. Þá fékk valinn hópur viðskiptavina bankans að kaupa 5 prósent til viðbótar á genginu 2,8 krónur á hlut skömmu fyrir útboð. Verðin sem hópunum buðust reyndust nokkuð undir útboðsgengi þar sem meðalverð í útboðinu varð 3,33 krónur á hlut. Arion banki telur að þetta verð sem fjárfestar og stjórnendur Símans greiddu eðlilegt þar sem gengið hafi verið frá samkomulaginu í maí. Hins vegar hafi það dregist fram í ágúst að ganga endanlega frá kaupunum.

Síminn var tekinn til viðskipta á Aðallista Kauphallarinnar þann 15. október. Vísir/GVA
„Í ofanverðum maí gerði bankinn samkomulag við fjárfestahóp* um kaup á um 5% hlut í Símanum á genginu 2,5 kr/hlut. Verðið í þeim viðskiptum (EV/EBITDA 2014 5,5x) var sambærilegt við verðmat á Vodafone (EV/EBITDA 2014 5,7x) á þeim tímapunkti sem samkomulagið var gert. 

Því var ekki um neinn afslátt að ræða, sérstaklega í ljósi 18 mánaða söluhamla. Frágangur viðskiptanna dróst, m.a. vegna nokkurs fjölda erlendra kaupenda frá ýmsum löndum. Því var ekki tilkynnt um viðskiptin fyrr en í ágúst og var sú töf óheppileg. Bankinn kom ekki að fjármögnun þessara viðskipta.“

„Í framkominni gagnrýni á verð í umræddum viðskiptum hefur verið horft fram hjá þróun hlutabréfamarkaðarins og Vodafone á því tímabili sem um ræðir. Hlutabréfaverð Vodafone hækkaði um 20% og markaðsvísitalan um 23% frá því í lok maí, þegar ákveðið var að selja 5% í Símanum, þar til útboðið hófst 5. október. Verðhækkun í tilviki Símans frá 2,5 kr/hlut, þegar verð til fjárfestahópsins var ákveðið og síðan upp í 3,1 kr./hlut sem voru efri mörk verðbilsins í útboðinu, var 24%.

Ekki er rétt að tala um afslátt í þessu sambandi – svona þróaðist markaðurinn og helsta samanburðarfyrirtækið. Þannig myndu fáir halda því fram nú í október að einstaklingur, sem seldi sinn hlut í Vodafone í maí, hefði verið að gefa kaupandanum 20% afslátt.“

Gengi hlutabréfa í Símanum hefur hækkað nokkuð frá því að viðskipti með bréfin hófust á markaði. Verð á hlut stendur nú í 3,65 krónur á hlut.


Tengdar fréttir

Bjarni: "Bankarnir verða að skilja kall tímans“

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir að sala Arion banka á bréfum í Símanum til vildarviðskiptavina rétt fyrir skráningu sé til þess fallin að rýra traust á fjármálamarkaði. Hann segir að bankarnir verði að skilja kall tímans og skynja þær kröfur sem gerðar eru til þeirra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×