Viðskipti innlent

Flugverð heldur áfram að lækka

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Ódýrast að fljúga til Óslóar en dýrast að fara til Boston.
Ódýrast að fljúga til Óslóar en dýrast að fara til Boston. vísir/gva
Flugverð lækkar áfram á milli mánaða, samkvæmt verðkönnun Dohop. Í heild lækkar flugverð um 4,7 prósent á milli mánaða, og vegur þar þungt lækkun á flugi til Finnlands um tæp 23 prósent og til Noregs um tæp 19 prósent.

Gögnin byggja á flugverði frá Íslandi næstu vikur til staða þar sem samkeppni er á markaðinum.

Verðið á flugi til 10 borga af 15 í könnun Dohop er á milli 35 og 50 þúsund krónur í haust, en þar á meðal eru vinsælir áfangastaðir á borð við París, Barcelona, Berlín, Amsterdam og Kaupmannahöfn. Flug til Bandaríkjanna kostar milli 75 þúsund og 95 þúsund krónur að meðaltali í könnuninni.

Ódýrast er að fljúga til Óslóar, þar sem Norwegian býður upp á lægsta farmiðaverðið.

„Dohop beitir sambærilegri aðferð og Hagstofa Íslands við samantekt gagna á fargjöldum. Þrjár dagsetningar eru skoðaðar hverju sinni: sú fyrsta er eftir tvær vikur, önnur eftir fjórar vikur og þriðja eftir átta vikur. Í hverri viku eru allir 7 dagar skoðaðir með vikudvöl í huga og meðaltal hverrar viku er endanlegt verð fyrir það tímabil,“ segir í tilkynningu fyrirtækisins um aðferð könnunarinnar.

Miðað er við einn farþega sem flýgur báðar leiðir með eina ferðatösku og handfarangur sem er minna en 5 kíló að þyngd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×