Íslenski boltinn

Hólmfríður líklega ekki með á morgun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hólmfríður í leiknum gegn Hvíta-Rússlandi í síðasta mánuði.
Hólmfríður í leiknum gegn Hvíta-Rússlandi í síðasta mánuði. Vísir/Vilhelm
Ólíklegt er að Hólmfríður Magnúsdóttir verði með Íslandi gegn Makedóníu þegar liðin mætast í undankeppni EM 2017 ytra á morgun.

Hólmfríður á 99 leiki að baki með landsliðinu og þarf því líklega að bíða eitthvað lengur eftir 100. leiknum.

„Ég hef áhyggjur af því að Fríða nái ekki leiknum,“ sagði Freyr í samtali við Vísi í dag. „Hún var með á æfingunni í dag og það gekk ekki nógu vel,“ bætti hann við en Hólmfríður er að glíma við bólgu í liðbandi í hægra hné.

Ísland mætir Slóveníu ytra á mánudaginn og Freyr er vongóður um að hún nái þeim leik. „Miðað við að henni líður betur með hverjum deginum þá er ég bjartsýnn á það. Þetta eru engu að síður mikil vonbrigði fyrir hana enda vildi hún ná 100. leiknum.“

„En ég vil að leikmenn mínir séu heilir í leikjunum. Það borgar sig að sýna skynsemi í svona málum.“

Guðbjörg Gunnarsdóttir markvörður hefur einnig verið að glíma við meiðsli í öxl en Freyr reiknar með því að hún geti verið með á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×