Viðskipti innlent

Fólk með lágar tekjur líklegra til að búa í leiguhúsnæði

Sæunn Gísladóttir skrifar
Heimilin í landinu eiga nú meira í fasteign sinni en árið 2010.
Heimilin í landinu eiga nú meira í fasteign sinni en árið 2010. Vísir/Vilhelm
Árið 2014 bjuggu 20,8 prósent í leiguhúsnæði og 12,4 prósent leigðu á almennum markaði og 8,3 prósent eftir öðrum leiðum. Í kjölfar hrunsins fjölgaði ört á leigumarkaði. Árið 2008 leigðu 12,9 prósent húsnæði sitt, 6,8 prósent leigðu á almennum markaði og 6,1 prósent leigðu eftir öðrum leiðum á borð við félagsbústaði, stúdentagarða eða á lækkuðu verði af nákomnum. Þrátt fyrir þessa fjölgun á leigumarkaði þá var Ísland með næst lægsta hlutfallið í leiguhúsnæði af Norðurlöndunum og næst hæsta hlutfallið sem bjó í skuldlausu eigin húsnæði. Þetta kemur fram í riti Hagstofunnar, Félagsvísar: Staða á húsnæðismarkaði 2014.

7,9 prósent 25-34 ára bjuggu í skuldlausu húsnæði

Staða á húsnæðismarkaði tengist aldri og tekjum. Árið 2014, leigði 35,5 prósent fólks á aldrinum 25-34 ára húsnæði sitt en 7,9 prósent bjuggu í skuldlausu eigin húsnæði. Á sama tíma bjuggu 9,7 prósent fólks 65 ára og eldri í leiguhúsnæði en 48,2 prósent í skuldlausu eigin húsnæði. Þá bjuggu 37,4 prósent fólks í lægsta fimmtungi tekjudreifingarinnar í leiguhúsnæði en aðeins 9,3 prósent í hæsta tekjubilinu.

Fólk með lágar tekjur líklegra til að búa í leiguhúsnæði

Heimili einstæðra foreldra og einhleypra og barnlausra einstaklinga undir 65 ára aldri voru líklegri til að búa í leiguhúsnæði. Þá voru innflytjendur líklegri en innfæddir til að leigja húsnæðið sem það bjó í, en 41,1 prósent þeirra sem fæddust erlendis bjuggu í leiguhúsnæði samanborið við 17,8 prósent þeirra sem fæddust á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×