Viðskipti innlent

Delta byrjar að fljúga milli Íslands og Minneapolis næsta sumar

Sæunn Gísladóttir skrifar
Delta verður með daglegt flug til tveggja áfangastaða í Bandaríkjunum, tengiflug til 130 áfangastaða í boði.
Delta verður með daglegt flug til tveggja áfangastaða í Bandaríkjunum, tengiflug til 130 áfangastaða í boði.
Delta Air Lines hefur ákveðið að hefja flug milli Íslands og Minneapolis næsta sumar. Flogið verður daglega milli Keflavíkurflugvallar og Minneapolis-St Paul alþjóðaflugvallarins (MSP), segir í tilkynningu. Fyrsta flugferðin verður 27. maí. Við þetta verður Delta með tvær daglegar ferðir til Bandaríkjanna yfir háannatímann, en félagið hefur flogið milli Íslands og New York frá 2011. Delta er eina bandaríska flugfélagið með áætlunarflug til Íslands.

„Með þessari nýju flugleið býður Delta 14 flugferðir í viku milli Íslands og Bandaríkjanna næsta sumar. Þetta er stóraukin þjónusta fyrir viðskiptavini okkar á Íslandi og í Bandaríkjunum,“ segir Nat Pieper, forstjóri Delta í Evrópu. „Ísland hefur reynst afar vinsæll áfangastaður hjá Bandaríkjamönnum og með nýrri flugleið styður Delta við íslenska ferðaþjónustu.“

Líkt og á flugleiðinni til New York mun Delta notast við Boeing 757 þotu til Minneapolis. Um er að ræða 199 sæta flugvél sem hefur 20 sæti á lúxusfarrými, 29 sæti á Delta Comfort+ farrrými og 150 sæti á almennu farrými.

Fyrir skömmu tilkynnti Delta að áætlunarflug milli Íslands og New York mundi hefjast í febrúar og standa í 7 mánuði á næsta ári. Það er þremur mánuðum lengur en áður. Með fluginu til Minneapolis til viðbótar geta farþegar Delta valið um tengiflug frá þessum borgum til 130 áfangastaða innan Bandaríkjanna, til Kanada og Suður-Ameríku. Meðal vinsælla áfangastaða í framhaldsflugi Delta eru Miami, Orlando, San Francisco, Los Angeles og Las Vegas.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×