Innlent

Enn óljóst hvers vegna sleppibúnaður virkaði ekki

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Gúmmíbjörgunarbátar eru einn mikilvægasti öryggisbúnaður sem sjófarendur reiða sig á. Ef sleppibúnaður þeirra virkar ekki er öryggi sjómanna stefnt í voða.
Gúmmíbjörgunarbátar eru einn mikilvægasti öryggisbúnaður sem sjófarendur reiða sig á. Ef sleppibúnaður þeirra virkar ekki er öryggi sjómanna stefnt í voða. vísir/ernir
Rannsakað verður hvers vegna björgunarbátur og sleppibúnaður sanddæluskipsins Perlu virkuðu ekki er það sökk í Reykjavíkurhöfn á mánudag, að sögn Jóns A. Ingólfssonar, rannsóknarstjóra sjóslysanefndar. Hann segir koma til greina að endurskoða verklags- og öryggisreglur, en þetta  er í annað sinn í ár sem sleppigálgi virkar ekki sem skyldi.

„Það er nauðsynlegt að taka þessum málum alvarlega og við munum prófa búnaðinn um leið og Perla kemur upp,“ segir Jón í samtali við Vísi. „Ég tel ekki rétt að vera með einhverjar vangaveltur, en við þurfum að bíða niðurstaðna úr þessum tveimur málum áður en við getum sagt til um það hvort einhverju þurfi að breyta, en það gæti vissulega komið til greina.“

Þá er rannsókn enn í gangi á orsökum þess að Jón Hákon BA fórst úti fyrir Aðalvík í júlí síðastliðnum, að sögn Jóns. Ljóst er þó að sjálfvirkur sleppibúnaður virkaði ekki, en ekki verður hægt að rannsaka ástæður þess fyrr en báturinn verður sóttur af hafsbotni.

„Við erum að vinna í þessu máli alveg á fullu. Ég get ekki sagt hvenær rannsókn lýkur en við erum að reyna að hraða okkur með það mál,“ segir Jón.

Einn lést er Jón Hákon sökk út af Aðalvík í norðanverðu Ísafjarðardjúpi hinn 7.júlí. Hvorugur björgunarbátanna blés út.Kort/Loftmyndir.is
Búnaðurinn prófaður árlega

Samgöngustofa hefur eftirlit með losunar- og sjósetningarbúnaði gúmmíbjörgunarbáta. Upplýsingafulltrúi Samgöngustofu sagðist ekki geta tjáð sig um einstök mál, þ.e eftirlitshluta á Jóni Hákoni og Perlu, en í skriflegu svari hans segir að búnaðurinn sé skoðaður og prófaður af þjónustuaðilum sem hafi fengið starfsleyfi frá Samgöngustofu til fimm ára í senn. Krafa sé gerð um að staðfesting liggi fyrir um þjálfun skoðunarmanna þjónustuaðila frá framleiðanda búnaðarins. Stofnunin hafi eftirlit með starfsemi þjónustuaðilanna, geri úttektir á tækjum og búnaði þeirra á vettvangi og gangi úr skugga um að farið sé að settum reglum.

Þá sé björgunarbúnaður skoðaður samkvæmt gátlistum og fyrirmælum framleiðanda og prófaður einu sinni á ári. Ef virkni búnaðar reynist ekki sem skyldi skuli gerðar úrbætur, það er framkvæmd viðgerð eða nýr búnaður settur um borð.


Tengdar fréttir

Nafn mannsins sem lést

Hann lét lífið þegar­ Jón Hákon BA-60 hvolfdi við Aðalvík í gær en þremur öðrum var bjargað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×