Fótbolti

Gunnhildur Yrsa á skotskónum í lokaumferðinni í Noregi

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Gunnhildur á landsliðsæfingu.
Gunnhildur á landsliðsæfingu. Vísir/Vilhelm
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var meðal markaskorara í 4-1 sigri Stabæk á Amazon Grimstad í lokaumferð norsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag en þetta var annað mark hennar á tímabilinu.

Gunnhildur sem gekk til liðs við Stabæk frá Grand Bodö fyrir tímabilið skoraði fyrsta mark leiksins á 32. mínútu en stuttu síðar bætti Line Hauge við marki.

Gestirnir í Amazon Grimstad minnkuðu muninn í upphafi seinni hálfleiks en tvö mörk frá Lindy Lövbræk í seinni hálfleik innsigluðu sigur Stabæk.

Stabæk lenti í 4. sæti norsku úrvalsdeildarinnar en um tíma leit út fyrir að þær myndu ná þriðja sæti. Jöfnunarmark Röa í 2-2 jafntefli gegn stöllum Jóns Páls Pálmasonar í Klepp gerði það að verkum að Röa skaust aftur upp fyrir Stabæk og náði þriðja sæti.

Hólmfríður Magnúsdóttir var ekki í leikmannahóp Avaldsnes í 7-0 stórsigri á Valerenga í dag en Hólmfríður var frá vegna meiðsla. Þórunn Helga Jónsdóttir hóf leikinn á bekknum hjá Avaldsnes en kom inná og lék síðustu tuttugu mínútur leiksins.

Liðsfélagar Guðbjargar Gunnarsdóttir töpuðu óvænt gegn Kolbotn 4-0 en Guðbjörg var ekki með Lilleström í dag vegna meiðsla. Þetta var aðeins annar tapleikur Lilleström á tímabilinu en liðið var þegar búið að tryggja sér norska meistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×