Innlent

Sjórinn flæddi inn í Perlu og dælurnar höfðu ekki undan

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá björgunaraðgerðum í kvöld. Sjónum var dælt upp um sérstaka hólka sem búið var að sjóða ofan a skipið.
Frá björgunaraðgerðum í kvöld. Sjónum var dælt upp um sérstaka hólka sem búið var að sjóða ofan a skipið. Stöð 2/Einar Árnason.
Bakslag kom í kvöld í björgun sanddæluskipsins Perlu af botni Reykjavíkurhafnar og var ákveðið laust fyrir klukkan ellefu að gera hlé á aðgerðum til morguns. Stefnt er að því að hefjast aftur handa á ný síðdegis á morgun, að sögn Þorsteins Vilhelmssonar, stjórnarformanns Björgunar.

Það var um áttaleytið í kvöld sem dælingin hófst en með henni var ætlunin að mynda nægilegt loftrými inni í skipinu til að það flyti sjálft upp. Kafarar höfðu í sólarhring á undan unnið við að þétta skipið. Virtist dælingin fara vel af stað í fyrstu. Á tíunda tímanum var þó ákveðið að stöðva dælingu þegar sýnt þótti að sjór flæddi inn í skipið og að dælurnar hefðu ekki undan.



Gluggi brast í brúnni í kvöld.Stöð 2/Einar Árnason.
Kafarar voru sendir niður til að kanna orsakir lekans og þétta glufur og að því búnu var reynt aftur að hefja dælingu. Ekki vildi þá betur til en að gluggi brast í brúnni. Þorsteinn Vilhelmsson segir að frekar en að halda áfram fram eftir nóttu hafi mönnum þótt skynsamlegra að gera hlé á verkinu og láta mannskapinn hvílast og reyna aftur á morgun.

Jóhann Garðar Jóhannsson, útgerðarstjóri Björgunar, stjórnar björgunaraðgerðinni á Ægisgarði en að henni koma um fjörutíu manns. Þeirra á meðal eru starfsmenn slökkviliðs höfuðborgarsvæðis, sem vakta flotgirðingu, en þeir hafa björgunarskip og neyðarbúnað til taks, ef vart verður olíuleka. 



Í kvöldfréttum Stöðvar 2 var bein útsending af vettvangi þar sem rætt var við útgerðarstjóra Björgunar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×