Rosberg leiddi keppnina frá upphafi til enda. Hann ók vel í dag og Hamilton átti ekki svar við þeim hraða sem Rosberg hafði.
Sebastian Vettel lenti í samstuði við Daniel Ricciardo, fyrrum liðsfélaga sinn og sprengdi dekk í fyrstu beygju. Annars gekk ræsingin vel og Rosberg hélt forystunni.
Fernando Alonso endaði á þjónustusvæðinu eftir einn hring, hann sagði að vandamálið hafi verið til staðar frá því í gær en liðið hafi ákveðið að sjá hvað bíllinn myndi þola. „Það var ekki tími til að laga vandamálið,“ sagði Alonso.
Ökumenn náðu gríðarlegum hraða á löngum beinum köflum, enda stendur brautin í 2200 metra hæð. Loftið er um 23% þynnra en við sjávarmál. Kæling var vandamál strax á fyrstu hringjum keppninnar. Bremsurnar voru að hitna gríðarlega hratt.
Vettel snérist á brautinni á hring 18, á undarlegan hátt. Hann bjó til stóran flatan blett á dekkin en var heppinn að halda bílnum frá varnarveggjunum.

Rosberg tók þjónustuhlé á hring 47, Hamilton kom svo á eftir honum. Mercedes hafði bilið í Kvyat til að taka annað stopp og því auðvitað öruggara að vera á nýjum dekkjum.
Hamilton var ekki á þeim buxunum að taka þjónustuhlé en kom inn á endanum. Hann heimtaði útskýringar. Honum var sagt að þetta væri af öryggisástæðum. Hann vildi líka að dekkin sem tekin voru undan yrðu skoðuð og honum veittar upplýsingar um slitið á þeim.
Vettel endaði á varnarvegg á hring 52. Öryggisbíllinn kom út og báðir Ferrari bílarnir þar með dottnir úr keppni. Það var síðast í Ástralíu 2006 sem Ferrari kom hvorugum bíl sínum í endamark.
Mercedes ökumenn héldu svipuðu bili á milli sín alla keppnina, Rosberg brást við öllum tilraunum Hamilton til að reyna að nálgast.
Hér fyrir neðan má sjá öll úrslit helgarinnar á gagnvirku brautarkorti.