Fótbolti

Henry: Allur heimurinn verður franskur á Wembley

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Thierry Henry verður mættur á Wembley í kvöld.
Thierry Henry verður mættur á Wembley í kvöld. vísir/getty
Thierry Henry, fyrrverandi fyrirliði Arsenal og leikmaður franska landsliðsins, býst við mikilli samstöðu leikmanna og stuðningsmanna Englands og Frakklands þegar liðin mætast í vináttuleik á Wembley í kvöld.

Aðeins fjórir dagar eru liðnir síðan hryðjuverkamenn myrtu 129 manns í París, en Henry ólst þar upp. Englendingar ætla að syngja franska þjóðsönginn í kvöld og þá verður boginn frægi yfir Wembley-leikvanginum litaður frönsku fánalitunum.

Sjá einnig:Enginn venjulegur vináttulandsleikur á Wembley í kvöld

„Ég var í Dubai á föstudagskvöldið þegar árásin átti sér stað í minni heimaborg og mér hefur aldrei liðið eins hjálparlausum,“ segir Henry í pistli sínum í The Sun.

Wembley verður í frönsku fánalitunum í kvöld.vísir/getty
Oft komið á Bataclan

„Ég var að horfa á leik Frakklands og Þýskalands á hótelinu mínu klukkan tvö um nótt þegar ég heyrði sprengingarnar. Ég áttaði mig ekki strax á hvað var í gangi.“

Tveir hryðjuverkamenn sprengdu sig í loft upp fyrir utan Stade de France og sá þriðji átti miða inn á völlinn en fór ekki þar inn.

Foreldrar Henrys búa í úthverfi Parísar og bróðir hans starfar á járnbrautarstöðu í borginni. Einn vinur hans vinnur á veitingastað nálægt einum árásarstaðnum.

„Ég hef komið á Bataclan mörgum sinnum eins og allir Parísarbúar,“ segir Henry sem býst við miklum tilfinningum á Wembley í kvöld.

„Þegar ráðist var á tvíburaturnana leið öllum eins og þeir væru Bandaríkjamenn. Þegar sprengingarnar voru í neðanjarðarlestakerfi Breta vorum við öll bresk. Í kvöld, á Wembley, verður allur heimurinn franskur,“ segir Thierry Henry.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×