Innlent

Veðurstofan varar við stormi á Vestfjörðum og Suðausturlandi á morgun

Atli Ísleifsson skrifar
Djúp lægð sem mun taka sér bólfestu suðaustur af landinu á morgun og færa okkur hvassan vind.
Djúp lægð sem mun taka sér bólfestu suðaustur af landinu á morgun og færa okkur hvassan vind. Vísir/Vilhelm
Veðurstofan varar við stormi á landinu suðaustanverðu og á Vestfjörðum á morgun. Búist er við að meðalvindur verði meiri en 20 metrar á sekúndu.

Á heimasíðu Veðurstofunnar segir að hlýr loftmassi muni hitti á kuldann suður af landinu í dag og mun gömul lægð hitta eina nýmyndaða. „Útkoman úr þessu öllu saman er djúp lægð sem mun taka sér bólfestu suðaustur af landinu á morgun og færa okkur hvassan vind.

Á morgun verða semsagt norðaustan 15-23 m/s með úrkomu, rigningu á láglendi, en færir sig yfir í slyddu eða snjókomu eftir því sem hærra er komið.

Ferðalangar ættu að huga að verðri og færð áður en lagt er í hann. Suðvestur fjórðungur landsins sleppur best útúr morgundeginum. Þar verður vindur hægari og ekki er búist við úrkomu. Útlit er fyrir áframhaldandi stífa norðanátt fram eftir næstu viku og má segja að vetur konungur komi til með að minna verulega á sig.

Það eru horfur á að það berist til okkar kalt loft norðan úr Íshafi og að um og uppúr miðri vikunni verði talsvert frost á landinu. Eins og svo algengt er í norðanátt, þá verða él á norðanverðu landinu, en bjart syðra. Langtímaspár gera ráð fyrir mildri og þurri vestlægri átt um næstu helgi sem smám saman boli kalda loftinu burt af landinu,“ segir í athugasemdum veðurfræðings á síðunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×