Innlent

Lítil kennsluflugvél fór niður á Reykjanesi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vettvangi um fjögurleytið í dag.
Frá vettvangi um fjögurleytið í dag. Vísir/Ernir
Lítil kennsluvél fór niður í hrauni á Reykjanesi á milli Keilis og Hafnarfjarðar rétt fyrir klukkan hálf fjögur í dag. Samkvæmt lögreglunni rofnaði samband við flugvélina og fór neyðarsendir hennar í gang. Tilkynning barst til lögreglunnar um klukkan 15:10 en tveir menn voru um borð í flugvélinni.

Flugvélin var gerðinni Tecnam og ein af fimm nýju vélum Flugskóla Íslands sem komu til landsins í upphafi mánaðarins.

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LÍF er komin á staðinn. Ekki liggur fyrir hvort um eiginlegt slys sé að ræða eða ástæður þess að flugvélinni var lent. Rannsóknarnefndin bíður eftir frekari gögnum áður en tekin verður ákvörðun um hvort rannsókn verði hafin.

Fjölmennt lið hefur verið sent suður Reykjanesbrautina en nánari upplýsingar fást ekki að svo stöddu. Lögreglan stýrir aðgerðum í hrauninu og hefur TF-LÍF verið flogið nokkrum sinnum slysstað. Um þrír til fjórir kílómetrar eru frá veginum og að slysstað.

Allt kapp er lagt á að ná að rannsaka aðstæður áður en myrkur skellur á samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Talið er líklegt að aðgerðir munu vara fram á kvöld.

Fjölmennt björgunarlið var kallað út um klukkan 15.30 í dag.vísir/ernir
Frá vettvangi í dag.vísir/khn
Landhelgisgæslan fór á staðinn.vísir/ernir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×