Skoðun

Endurskoða verður lífeyri

Björgvin Guðmundsson skrifar
Miklar launahækkanir hafa átt sér stað á þessu ári, meiri en um langt skeið. Ríkið reið á vaðið með því að gera háa samninga við framhaldsskólakennara og lækna. Samið var við framhaldsskólakennara um 44% kauphækkun á þremur árum, að meðtalinni viðbótarhækkun, sem fékkst vegna úrskurðar gerðardóms í máli BHM. Og samið var við lækna um 25 til 40 prósenta launahækkun á þremur árum.

Með þessum samningum ríkisins var stefnan mörkuð og í kjölfarið fylgdu margir háir samningar. Verkafólk var orðið langþreytt á að bíða eftir kjarabótum og það var viðurkennt í þjóðfélaginu, að ekki væri unnt að lifa af lægstu launum verkamanna. Fyrsta maí síðastliðinn sömdu Flóabandalagið, Starfsgreinasambandið og VR um 14,5 prósenta hækkun á lágmarkslaunum (lágmarkstekjutryggingu) strax og að launin skyldu hækka í 300 þúsund krónur á þremur árum. Það er 40 prósent hækkun lágmarkslauna, úr 214 þúsund krónum á mánuði í 300 þúsund á mánuði. Á eftir fylgdu fjölmargir kjarasamningar og flestir í hærri kantinum. Nú síðast sömdu sjúkraliðar, lögreglumenn og SFR við ríkið og fengu 30 til 32 prósenta launahækkun á fjórum árum. Einnig var samið um að gera tilraun með styttingu vinnutíma, 36 stunda vinnuviku, án kjaraskerðingar. Athuga á hvort afköst aukast við styttingu vinnutíma.

Launaþróun liggur ljós fyrir

Samkvæmt lögum á að taka mið af launaþróun, þegar lífeyrir aldraðra og öryrkja er ákveðinn. Á þessu ári hefur launaþróun legið ljós fyrir og einnig hækkun lágmarkslauna. Ei að síður miðaði fjármálaráðuneytið við ÁÆTLUN um hækkun launavísitölu, þegar fjallað var um hækkun lífeyris aldraðra og öryrkja. Þessi áætlun var miklu lægri en raunhækkanir kjarasamninga 1. maí. Kjarasamningar lágu það snemma fyrir, að ekki þurfti að byggja á áætlunum. Með því að margir nýir kjarasamningar hafa bæst við síðan fjármálaráðuneytið gerði tillögu um hækkun lífeyris verður að treysta því, að tillögurnar verði endurskoðaðar og lífeyrir hækkaður til samræmis við raunverulega launaþróun ársins. Einnig tel ég koma til greina að miða við hækkun lágmarkslauna (lágmarkstekjutryggingar). Hækkun lífeyris á að mínu mati að gilda frá 1. maí sl. samanber t.d. síðustu kjarasamninga við SFR ,sjúkraliða og lögreglumenn, sem gilda frá 1. maí 2015.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×