Í færslu sinni vísar Vilhjálmur í forsíðufrétt Fréttablaðsins í gær og segir að því hafi verið „slegið upp á forsíðu, að íbúð í Hlíðunum hafi verið útbúin til nauðgana. Hér er myndband af íbúðinni. Dæmi nú hver fyrir sig. Engu að síður kýs aðalritstjóri Fréttablaðsins að berja höfðinu við steininn og segir í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í gær að Fréttablaðið standi við fréttina.“
Þá segir Vilhjálmur að mennirnir neiti alfarið sök og segir að gögn málsins og vitnsiburðir styðji framburð þeirra.
Fram kom í frétt Fréttablaðsins í gær að ekki hafi verið farið fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum. Sú ákvörðun vakti mikla reiði í samfélaginu og var meðal annars boðað til mótmæla við lögreglustöðina auk þess sem hundruð Íslendinga deildu færslum á Twitter og Facebook þar sem mennirnir eru nafngreindir. Þá gengur um Facebook færsla þar sem einnig er að finna myndir af mönnunum og þeir sagðir nauðgarar.
Um þetta segir lögmaðurinn:
„Aftaka kærðu á netinu í gær mun verða íslendingum til vansa um aldir alda. Á því ber Fréttablaðið fulla ábyrgð ásamt hlutaðeigandi mykjudreifurum. Á þá ábyrgð mun reyna.“
Í athugasemd við fréttina er Vilhjálmur spurður að því hvort ekki sé séns á því að meintur nauðgari hafi fjarlægt „þetta“, og vísar þar væntanlega til tóla og tækja sem Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að lögreglan hafi fundið í íbúðinni. Vilhjálmur svarar þessu neitandi og segir lögregluna hafa verið löngu búna „að gera húsleit þegar myndbandið var tekið.“
Myndbandið og Facebook-færslu Vilhjálms má sjá hér að neðan.