Formúla 1

Rosberg: Ég er bara fljótari núna

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Þrír hröðustu menn dagsins. Raikkonen, Rosberg og Hamilton.
Þrír hröðustu menn dagsins. Raikkonen, Rosberg og Hamilton. Vísir/Getty

Nico Rosberg náði sjötta ráspólnum í röð. Hann tryggði Mercedes 18. ráspólinn á tímabilinu. Hver sagði hvað eftir tímatökuna?

„Ég er bara fljótari núna og nýt þess. Það er gaman að ná ráspól aftur. Auðvitað væri frábært að vinna á morgun, það er aðal markmiðið,“ sagði Rosberg.

„Ég hef aðeins verið að glíma við bílinn en Nico var bara of fljótur í dag. Hann ók vel,“ sagði Lewis Hamilton eftir tímatökuna.

„Bíllinn hefur verið góður, hringirnir tókust ekki alltaf fullkomlega. Við erum enn langt á eftir Mercedes en gerðum okkar besta í síðustu tilrauninni,“ sagði Kimi Raikkonen eftir tímatökuna.

„Bíllinn hefur aldrei verið betri en akkurat núna. Það var ekkert grip í síðustu tilrauninni. Það eru vonbrigði að enda tólfti þegar maður byrjar tímatökuna á því að ná níunda í fyrstu lotu,“ sagði Jenson Button, ökumaður McLaren.

Sergio Perez átti góða tímatöku á Force India bílnum, þrátt fyrir að hafa ekki náð þriðja sætinu af Raikkonen.Vísir/Getty

„Við áttum erfiða helgi í Brasilíu, við rannsökuðum það mjög ítarlega og kom margt í ljós. Við lærðum helling og það er að skila sér. Ég ætla að ná fram úr Kimi í ræsingunni,“ sagði Sergio Perez á Force India sem ræsir fjórði á morgun.

„Það er ekkert svo slæmt að ræsa ellefti. Ég mun reyna að komast framar í upphafi keppninnar á morgun,“ sagði Max Verstappen á Toro Rosso.

„Við gætum komið á óvart á morgun í keppninni. Uppstillingin okkar hentar betur fyrir keppni. Við verðum að sjá bara hvort við getum hugsanlega reynt að komast á pall,“ sagði Valtteri Bottas sem ræsir sjötti á morgun.

Bein útsending frá keppninni hefst klukkan 12:30 á Stöð 2 Sport á morgun.

Hér fyrir neðan má sjá öll helstu úrslit helgarinnar á gagnvirku brautarkorti.


Tengdar fréttir

Mercedes fljótastir á föstudagsæfingum

Lewis Hamilton á Mercedes var fljótastur á fyrri æfingu dagsins í Abú Dabí. Liðsfélagi hans, Nico Rosberg var fljótastur á seinni æfingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×