Innlent

SALEK samkomulagið í uppnámi vegna vanefnda stjórnvalda

Heimir Már Pétursson skrifar
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins. Vísir/Vilhelm

Forseti Alþýðusambandsins segir líkur á kjarasamningar á almennum vinnumarkaði losni upp og erfitt geti reynst að koma saman nýjum samningum í febrúar, standi stjórnvöld ekki við sitt í SALEK samkomulaginu.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins, segir verkalýðshreyfinguna hafa verið í viðræðum við Samtök atvinnulífsins á undanförnum vikum á grundvelli SALEK samkomulagsins til að aðlaga kjarasamninga á almennum markaði að markmiði samkomulagsins um launaþróun fram til ársins 2018. Það kalli á leiðréttingu launahækkana.

„Þá lá ljóst fyrir þegar SALEK samkomulagið var gert að atvinnulífið treysti sér ekki í þessa vegferð öðruvísi en að það kæmu einhverjar mótvægisaðgerðir að hálfu stjórnvalda. Því það er verið að fylgja eftir launastefnu sem að ríkið og að einhverju leyti sveitarfélögin hafa mótað síðastliðið ár,“ segir Gylfi.

Meðal mótvægisaðgerða stjórnvalda hafi verið að lækka tryggingagjaldið en þess sjáist engin merki að stjórnvöld ætli að standa við það í fjárlagafrumvarpi næsta árs sem setji SALEK samkomulagið í uppnám.

„Það er alveg klárt að ef að atvinnulífið treystir sér ekki til að fylgja eftir því innihaldi sem var í þessu samkomulagi. Þá mun málið væntanlega fara í þann farveg að við náum ekki saman um breytingaraðgerðir eftir samningum.

Það kemur til endurskoðunar kjarasamninga í febrúar og ef aðildarfélög og félagsmenn Alþýðusambandsins njóta sannmælis í launaþróun, þá getum við ekkert annað gert en að opna kjarasamninga og vera þá óbundin af friðarskyldu í samtölum okkar við atvinnurekendur og stjórnvöld.“

Mikil átök hafa verið á vinnumarkaði allt þetta ár og erfiðlega gekk að ná kjarasamningum bæði á almenna markaðnum og hinum opinbera markaði. Ef samningar verða opnaðir í febrúar segir Gylfi að búast megi við að enn erfiðara verði að koma á friði á vinnumarkaðnum.

„Mér skilst að það sé þannig að allir aðrir kjarasamningar í landinu hafi það sem forsendu að ef að Alþýðusambandið opni sína samninga, þá geti önnur félög eða sambönd gert það sama. Ef það er rétt færi þetta aftur á byrjunarreit.“

„Ég held að við verðum að horfast í augu við það að ef það tekst ekki að vinna úr þessu máli á farsælan hátt, þannig að við sköpum grundvöll að friði á vinnumarkaði og þá sátt á vinnumarkaði til næstu ára, þá held ég að næsta lota verði, ef eitthvað er, erfiðari en sú síðasta. Ég held við verðum að gera ráð fyrir því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×