Erlent

Segir árás Tyrkja hafa verið „skipulagða ögrun“

Samúel Karl Ólason skrifar
Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Vísir/EPA
Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir árás Tyrkja á sprengjuflugvél Rússlands hafa verið „fyrirfram skipulagða ögrun“. Þá undrast hann að yfirlýsingar NATO og ESB hafi verið ætlað að styðja Tyrkja en ekki votta Rússum samúð á nokkurn hátt.

Tyrkir segja flugvélina hafa komið inn fyrir lofthelgi sína í um 17 sekúndur, en fyrir það hafi þeir varað flugmennina við tíu sinnum á fimm mínútum. Rússar segja hins vegar að sprengjuvélin hafi aldrei farið inn í lofthelgi Tyrklands og að orrustuþotur Tyrkja hafi flogið inn í lofthelgi Sýrlands til að granda vélinni. Lavrov ræddi við utanríkisráðherra Tyrklands í dag og eftir fund þeirra ræddi hann við blaðamenn.

Sjá einnig: Vígamenn felldu rússneskan hermann í björgunaraðgerð

Hann tók skýrt fram að Rússar væru ekki á leið í stríð við Tyrkland vegna atviksins.

„Við höfum efasemdir um að þetta hafi ekki verið viljaverk og teljum þetta hafa verið fyrirfram skipulagða ögrun,“ er haft eftir Lavrov á vef Washington Post. Ennfremur sagði Lavrov að Rússar ættu ekki í deilum við tyrknesku þjóðina, heldur leiðtoga hennar.

Sjá einnig: Segir leiðtoga Tyrklands stuðla að íslam-væðingu landsins

Á vef TASS fréttaveitunnar, sem rekin er af rússneska ríkinu, segir að utanríkisráðherra Tyrklands hafi sagt Lavrov að Tyrkir hafi ekki vitað að um rússneska vél væri að ræða. Flugher Sýrlands er einnig virkur á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×