Handbolti

Fékk umdeilt rautt spjald eftir 45 sekúndur | Sjáðu brotið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sverre Andreas Jakobsson, þjálfari Akureyrar, var ekki ánægður með ákvörðun dómaranna.
Sverre Andreas Jakobsson, þjálfari Akureyrar, var ekki ánægður með ákvörðun dómaranna. Vísir
Rúv hefur á vef sínum birt upptöku af brotinu sem varð til þess að Halldór Logi Árnason, leikmaður Akureyrar, fékk rautt spjald í leik liðsins gegn FH í gær.

Halldór Logi og Bergvin Gíslason stigu út í Einar Rafn Eiðsson, leikmann FH, sem sótti á vörn Akureyringa. Einar Rafn fékk högg í andlitið og lá eftir í gólfinu, eins og sjá má í myndskeiðinu.

„Ég snéri bakinu í Einar og var að passa línumanninn þegar Einar klessir allt í einu inni í bakið á mér. Dómararnir mátu þetta sem svo að ég hefði gefið honum olnbogaskot og þeim til varnar gerist þetta hratt og erfitt fyrir þá að meta þetta á svona stuttum tíma,“ sagði Halldór Logi í viðtali við Vísi eftir leikinn í gær.

Bjarki Bóasson og Gunnar Óli Gústafsson dæmdu leikinn en fram kemur í frétt Rúv að dómarar leiksins hafi sent inn agaskýrslu vegna málsins sem þýðir að Halldór Logi verður hugsanlega dæmdur í leikbann vegna brotsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×