Kristín Edwald, verjandi Landspítalans í máli ákæruvaldsins gegn Ástu Kristínu Andrésdóttur, hjúkrunarfræðingi á spítalanum sem í dag var sýknuð af ákæru um manndráp af gáleysi, segist ánægð með niðurstöðuna.
„Það hefði aldrei átt að ákæra í þessu máli og ég er gríðarlega ánægð með niðurstöðuna. Dómurinn kemur mér ekki á óvart,“ segir Kristín í samtali við Vísi.
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag bæði Ástu og Landspítalann af ákæru í málinu auk þess sem bótakröfum var vísað frá dómi. Ásta Kristín var sökuð um yfirsjón í starfi sem leiddi til dauða sjúklings á gjörgæsludeild Landspítalans þann 3. október 2012.
Var henni gefið að sök að hafa láðst að tæma loft úr kraga (belg) barkaraufarrennu þegar hún tók sjúklinginn úr öndunarvél og setti talventil á barkaraufarrennuna. Ásta neitaði ávallt sök í málinu.
Mikið fjölmenni var við dómsuppkvaðninguna í héraðsdómi í dag og brutust út fagnaðarlæti þegar sýknudómurinn var kveðinn upp.