Innlent

Aron heim til að bera Fidda til grafar

Jakob Bjarnar skrifar
Fiddi var mikill stuðningsmaður FH en handboltakapparnir Logi og Aron kunnu vel að meta það og höfðu Fidda í hávegum.
Fiddi var mikill stuðningsmaður FH en handboltakapparnir Logi og Aron kunnu vel að meta það og höfðu Fidda í hávegum.
Handboltahetjan Aron Pálmarsson flýgur gagngert til landsins, heim frá Búdapest og fékk frí frá liði sínu Vezprem, til að vera við jarðarför Friðriks Oddssonar – Hafnfirðingsins Fidda.

„Já, hann verður einn þeirra sem bera kistuna,“ segir Logi Geirsson sem hefur veg og vanda að jarðarförinni.

Einhvern veginn svona gæti stytta af Fidda, í miðbæ Hafnarfjarðar, litið út.Bergur Ólafsson/Stefán Snær
Eins og Vísir hefur greint frá féll Fiddi frá fyrir skömmu og varð það fjölmörgum sveitungum hans í Hafnarfirði tilefni til að minnast hans. Fiddi var mikill FH-ingur og einn þeirra sem setti sinn svip á bæjarbraginn í Hafnarfirði.

Vísir hefur þegar greint frá því að Logi vilji ganga í það verk að láta reisa af Fidda styttu sem komið yrði fyrir í miðbæ Hafnarfjarðar. Að sögn Loga eru þegar nokkrir inni í myndinni sem gætu tekið það verkefni að sér, að gera styttuna.

Logi segir að það hafi komið honum í opna skjöldu hversu margir hafa boðað komu sína við jarðarförina, sem verður klukkan 13:00 í Hafnarfjarðarkirkju, næstkomandi fimmtudag. Þrátt fyrir að margir Hafnfirðingar hafi þekkt Fidda.

„Samkvæmt Facebook-síðu eru þetta yfir 600 manns. Fjórum klukkustundum eftir að síðan var sett upp höfðu 400 boðað komu sína,“ segir Logi en erfidrykkja verður í Kaplakrika, en þar verður jafnframt sýnt frá útförinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×