Innlent

Skilorðsbundinn dómur fyrir kynferðisbrot gegn fimm ára frænku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Héraðsdómur Norðurlands eystra á Akureyri.
Héraðsdómur Norðurlands eystra á Akureyri. Vísir/Pjetur
22 ára karlmaður hlaut á föstudaginn fimmtán mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir kynferðisbrot gegn frænku sinni árið 2010. Þá var maðurinn á sautjánda ári en frænka hans fimm ára gömul. Játaði maðurinn brot sín en honum var gefið að sök að hafa strokið kynfæri stúlkunnar utan klæða en einnig blásið á þau og sleikt. Var hann dæmdur til að greiða henni 800 þúsund krónur í skaðabætur.

Í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra kemur fram að kæruerindi hafi borist lögreglu fjórum árum eftir brotið, árið 2014. Brotin áttu sér stað sumarið 2014 þegar pilturinn dvaldi tímabundið á heimili foreldra stúlkunnar  vegna sumarvinnu. Tók hann að sér að gæta stúlkunnar að kvöldi en þau voru systkinabörn.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að maðurinn var sakfelldur fyrir alvarlegt brot gegn barnungri stúlku sem tengdist honum ættarböndum. Þá var litið til þess að honum var trúað fyrir barninu um stund og mátti hann gera sér grein fyrir að háttsemin var til þess fallin að valda barninu alvarlegu tjóni líkt og fyrrnefnd sálfræðiskýrsla bendi til.

Á hinn bóginn tók dómurinn tillit til játningar piltsins sem var skýlaus og hreinskilin. Hann samþykkti að greiða stúlkunni bætur og þá var tekið tillit til ungs aldurs hans þegar hann framkvæmdi brotin. Þá liggur fyrir að hann hefur leitað aðstoðar sálfræðings.

Var því skilorðsbundinn fimmtán mánaða dómur talinn hæfilegur. Dóminn í heild sinni má lesa hér.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×