Körfubolti

Arnar og Axel unnu Israel Martin eftir framlengingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Guðjónsson og Craig Pedersen sjást hér stýra íslenska landsliðinu.
Arnar Guðjónsson og Craig Pedersen sjást hér stýra íslenska landsliðinu. Vísir/Andri Marinó
Arnar Guðjónsson stýrði Svendborg Rabbits til óvænts útisigurs á móti Bakken Bears í dönsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Svendborg Rabbits vann þá 102-98 sigur á Bakken Bears eftir framlengingu en frábær endurkoma strákanna hans Arnars í fjórða leikhluta og góð frammistaða í framlengingunni tryggðu liðinu annan sigurinn undir stjórn Arnars Guðjónssonar.

Israel Martin, fyrrum þjálfari Tindastóls, þjálfar lið Bakken Bears, en liðið var búið að vinna sjö af fyrstu átta leikjum sínum þar á meðal útisigur á Kanínunum fyrr í vetur.

Arnar tók við liði Svendborg Rabbits af Craig Pedersen um miðjan nóvember en Pedersen ákvað að einbeita sér að þjálfun íslenska landsliðsins.

Axel Kárason spilar með Svendborg Rabbits og lék í 19 mínútur í kvöld. Axel skoraði ekki og klikkaði á öllum fjórum skotunum sínum en var með 2 fráköst og 1 stoðsendingu.

Bakken Bears liðið byrjaði leikinn miklu betur og var þrettán stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 28-15.

Svendborg Rabbits var búið að minnka muninn niður í sjö stig fyrir hálfleik, 47-40, og það var enn sjö stiga munur fyrir lokaleikhlutann, 73-66.

Arnar Guðjónsson náði að kveikja í sínum mönnum í hléinu á milli þriðja og fjórða leikhluta.

Axel Kárason var inná þegar Svendborg Rabbits skoraði tólf stig í röð og breytti stöðunni úr 66-73 í 78-73.

Liðin skiptust á því að taka forystuna í lokaleikhlutanum en Antonio Pernigotti tryggði Svendborg Rabbits að lokum framlengingu með því að setja niður tvö víti sextán sekúndum fyrir leikslok. Hann jafnaði þá leikinn í 93-93.

Svendborg Rabbits var sterkari í framlengingunni, vann hana 9-5 og þar með leikinn 102-98.

Bandaríkjamaðurinn Brandon Rozzell skoraði 37 stig fyrir Svendborg Rabbits í kvöld en hann var bara með 7 stig í hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×