Gagnrýni

Seiðandi suðupottur

Björn Teitsson skrifar
Halleluwah.
Halleluwah.
Tónlist

Halleluwah

Sena 2015



Það ríkti talsverð eftirvænting eftir efni frá tvíeykinu Halleluwah þegar fregnir bárust af tilvist þess. Ósköp skiljanlegt þar sem um var að ræða endurkomu fasteignamógúlsins Sölva Blöndal í tónlistarbransann en hann hafði áður gert garðinn frægan sem helsti lagahöfundur og trommuleikari Quarashi, einnar farsælustu hljómsveitar Íslandssögunnar. Ekki skemmdi fyrir að með honum í tvíeykinu væri Rakel Mjöll Leifsdóttir, söngkona og sjónlistakona með meiru. Samnefnd plata Halleluwah leit dagsins ljós í ár þótt fyrsti singullinn sé nokkurn veginn jafnaldri ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs en hljómsveitin hefur spilað reglulega á tónleikum og vakið mikla lukku – ekki síst fyrir sjónræna upplifun sem er í höndum listakonunnar Rakelar.

Hvergi hefur komið fram hvort nafn hljómsveitarinnar sé vísun í lag þýsku krautrokksveitarinnar Can, Halleluhwah. Það væri alveg nokkuð kúl ef svo væri, þar sem tónlist þýsku sérvitringanna var suðupottur sem samanstóð meðal annars af bandarískri djasstónlist, fönki og framúrstefnurokki. Tónlist Halleluwah er einnig suðupottur þar sem hráefnin eru sótt víða að. Indískotið rafpopp undir áhrifum kvikmyndatónlistar 6. og 7. áratugar síðustu aldar með dassi af hip/trip-hoppi Bristol-bylgjunnar og gítarhljómi sem var vinsæll upp úr síðustu aldamótum meðal sveita sem höfðu yfirleitt söngvara að skipa sem klæddist einhvers konar Napóleon-jakka á sviði.

Platan geymir níu lög en þeirra vinsælast er líklega lagið Move Me, sem margir kannast við úr nýlegri auglýsingu frá Símanum, og lagið Dior, trip-hoppskotið lag með kvikmyndatónlistaráhrifum. Takturinn í Move Me virðist vera aðeins hraðari útgáfa af taktinum í Mr. Blue Sky með ELO, sem er auðvitað ekkert einsdæmi. Dior er besta lag plötunnar þar sem lagahöfundurinn Sölvi fær að njóta sín, margslungið, seiðandi lag og söngurinn þokkafullur. Spin er efnilegt lag sem singull, flott notkun á effektum og smá „Madchester“-stemmari sem kemur smá af vinstri kanti en virkar vel. Nico er einnig vel yfir meðallagi og virðist innihalda virðingarvott til Singapore Sling, rokk og ról og sólgleraugu innandyra með öllu tilheyrandi.

Hugmynda- og fagurfræðilega gengur þetta allt saman upp og það væri gaman að sjá meira efni koma frá Halleluwah. Á þessari plötu er enga sérstaklega veika punkta að finna en hana vantar fleiri og sterkari slagara, þótt snilldartakta megi finna inn á milli.

Niðurstaða: Eigulegur gripur sem inniheldur snilldartakta á köflum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×