Innlent

Breytingartillögur meirihlutans eru á þriðja hundrað talsins

Sveinn Arnarsson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í ræðustól Alþingis.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í ræðustól Alþingis. Fréttablaðið/Vilhelm
Fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár var tekið úr fjárlaganefnd um helgina. Frumvarpið er því tilbúið til annarrar umræðu með breytingartillögum og nefndaráliti. Umræður fara fram á morgun, þriðjudag. Með nýjustu breytingartillögunum er gert ráð fyrir að afgangur á rekstri ríkissjóðs verði mun minni en þeir 15,3 milljarðar sem gert var ráð fyrir í upphafi.

Lagðir eru nokkrir fjármunir í eflingu innviða vítt og breitt um landið. Breytingartillögur meirihlutans eru á þriðja hundrað talsins og því líklegast að umræður í þinginu verði fjörlegar og þær muni taka nokkurn tíma.

Vigdís Hauksdóttir er ánægð með þær breytingartillögur sem meirihluti fjárlaganefndar leggur til að þessu sinni. Í heildina leggur nefndin til fjárútlát upp á 8,8 milljarða króna. „Mér líst vel á þessar breytingar. Hér erum við að forgangsraða í grunnstoðir samfélagsins og ég tel að þingmenn geti verið ánægðir með hvernig til hefur tekist. Enn gerum við ráð fyrir hallalausum fjárlögum sem skiptir sköpum í að lækka skuldir ríkissjóðs,“ segir Vigdís en telur líklegt að frumvarpið verði rætt í þaula. „Ég sem formaður fjárlaganefndar vona að allir þingmenn taki til máls í þessu mikilvægasta máli þingsins á hverju ári, sem fjárlögin eru.“

Oddný Harðardóttir
Oddný Harðardóttir, sem situr í minnihluta fjárlaganefndar, segir sárvanta fjármagn til Landspítala og til aldraðra. „Það sker í augu að ekki er gert ráð fyrir hækkun á kjörum eldri borgara frá 1. maí 2015 eins og lægstu laun gerðu. Þannig sitja aldraðir eftir. Það er líka áberandi að það skorti fé til Landspítalans. Ekki eru gerðar tillögur til að bæta við fé vegna fjölgunar sjúklinga. Það þýðir í raun niðurskurð sem því nemur. Við þurfum engar greiningar til að sýna okkur þá stöðu, hún er augljós,“ segir Oddný.

Í greinargerð meirihlutans er gerð grein fyrir útgjaldaþróun nokkurra eftirlitsstofnana. Kemur í ljós að útgjaldaaukning stofnana frá árinu 2007 til 2016 er 60 prósent; var rúmir 8,2 milljarðar árið 2007 en er nú 13,1 milljarður króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×