Innlent

Hellisheiði enn lokuð og búið að loka Kjalarnesi aftur

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Vonskuveður og vegir lokaðir víða um land.
Vonskuveður og vegir lokaðir víða um land. Vísir/Friðrik Þór
Vegurinn um Kjalarnes hefur aftur verið lokaður eftir að hafa verið opnaður um tíma í dag. Hellisheiði er enn lokuð sem og Mosfellsheiði, Mosfellsdalur og Suðurstrandarvegur. Þá er einnig lokað á Súðavíkurhlíð, Siglufjarðarvegi og í Ólafsfjarðarmúla vegna snjóflóðahættu.

Þetta kemur fram í tilkynningu Vegagerðirnar þar sem einnig kemur fram að akstursbann sé á Breiðdalsheiði og Öxi. Vonskuveður er í flestum landshlutum og vegir meira og minna ófærir eða lokaðir. Með öðrum orðum er ekkert ferðaveður.

Vegagerðin lýsir færð og aðstæðum svona:

Hálka og skafrenningur er á Reykjanesbraut, Sandskeiði og í Þrengslum. Á Suðurlandi er víða talsverður snjór á vegum - þæfingur, þungfært eða jafnvel ófært almennri umferð.

Ófært og stórhríð er á Fróðárheiði, Holtavörðuheiði og Bröttubrekku. Hálka og stórhríð er víða á Vesturlandi.

Á Vestfjörðum er ófært á langleiðum en fært milli flestra þéttbýliskjarna. Þó er Súðavíkurhlíð lokuð vegna snjóflóðahættu.

Vonskuveður er einnig á Norðurlandi með skafrenningi, snjókomu og ófærð.  Siglufjarðarvegur og Ólafsfjarðarmúli eru lokaðir vegna snjóflóðahættu og einnig er varað við snjóflóðahættu bæði í Ljósavatnsskarði og Dalsmynni.

Á Austurlandi er ófært á Möðrudalsöræfum, Vopnafjarðarheiði og Vatnskarði eystra. Þæfingsfærð er á Fjarðarheiði, snjóþekja á Fagradal en hálka á Oddsskarði. Hálka er með ströndinni suður um.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×