Innlent

Hviður gætu farið yfir fimmtíu metra á mánudag

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
„Það er fínasta veður á morgun. Það lægir smám saman í nótt og fyrramálið, og birtir til á morgun. En það er á mánudaginn, um hádegið, sem það fer að hvessa svolítið verulega og hætt við því að vindhraðinn verði meiri en í gær,“ segir Þorsteinn V. Jónsson veðurfræðingur.

Spákort fyrir mánudaginn líta ekki vel út og segir Þorsteinn að vindhviður geti farið yfir fimmtíu metra á sekúndu. „Meðalvindurinn er upp í svona 28 metra en hviðurnar geta örugglega nálgast fimmtíu eða farið yfir það jafnvel,“ segir hann. 

„Eins og spárnar líta út núna er þetta verulega vont veður allra syðst; Eyjafjöll, Mýrdalur og Öræfi verður verst úti í rokinu,“ segir hann og bætir við: „Það mun einnig blása verulega á öðrum stöðum landsins.“

„Það kemur líka snjókoma sem fer svo út í slyddu eða rigningu hérna Sunnanlands þegar líður á daginn,“ segir hann.  „Það blotnar í öllu. Það verður hláka.“

Þannig að færðin kann að vera slæm? „Ég held að það verði að segja það. Sérstaklega á Norðan og Vestanverðu landinu þar sem nær ekki að hlýna,“ segir hann. „Það verður líka slæmt veður hérna Sunnanlands. Það verður bara ekkert ferðaveður neins staðar á landinu á mánudaginn eftir hádegi.“

„Eins og þetta lítur út núna er þetta austanvonskuveður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×