Innlent

Lögreglan á Akureyri varar við hættulegum hrossum

Sveinn Arnarsson skrifar
vísir/stefán
Girðingar í nágrenni Akureyrar eru margar hverjar á kafi og hross eiga greiða leið upp á þjóðvegi. Stórhættulegt ástand, segir yfirlögregluþjónn. Formaður hestamannafélagsins Léttis á Akureyri tekur undir varnaðarorð lögreglunnar.

Landbúnaður Lögreglan á Akureyri hefur síðustu daga haft í nógu að snúast í hrossasmölun norðan Akureyrar. Eftir snjóatíð undanfarið hafa margar girðingar farið í kaf. Einnig hafa jarðbönn orðið í mörgum túnum og hross því farið af stað í leit að æti.

„Já, það hafa komið tilvik þar sem við höfum verið að smala hrossum af vegum til að gæta öryggis bæði dýra og vegfarenda,“ segir Daníel Guðjónsson, yfirlögregluþjónn á Akureyri.

Þann 9. desember sem og tveimur dögum síðar þurftu lögreglumenn á Akureyri að sinna útköllum þar sem hross voru farin úr hólfum sínum. Mikið hafði snjóað þá daga og girðingar fóru á kaf. Þann 9. þurftu lögreglumenn að koma hrossum af þjóðvegi 1 rétt norðan Akureyrar í svartamyrkri. Tveimur dögum seinna þurftu svo lögreglumenn að smala hrossum innan bæjarmarka Akureyrar. Náðist að króa hrossin af á leikvelli barna ofarlega í bænum þar sem eigendur vitjuðu hrossa sinna.

„Það er stórhætta þegar svona stórar skepnur fara úr girðingum og upp á vegi,“ segir Daníel yfirlögregluþjónn. „Viljum við því biðla til bænda og eigenda búfjár á þessum slóðum að huga að girðingum sínum. Ef ekki er hægt að halda hólfum girtum er nauðsynlegt að taka hesta á hús svo ekki skapist stórhætta.“

Sigfús Ólafur Helgason, framkvæmdastjóri hestamannafélagsins Léttis á Akureyri, tekur undir orð yfirlögregluþjónsins á Akureyri og þakkar fyrir að ekki hafi orðið slys. 

„Við höfum beint því til eigenda hrossa á svæðinu að huga að útigangi. Girðingar eru komnar á kaf og enga beit er að finna í mörgum hólfum. Því þarf að gefa hrossum úti og huga vel að girðingum. Við höfum einnig fengið fjölda ábendinga um laus hross á svæðinu. Það er mjög mikilvægt í því árferði sem nú er að gæta að því að hross fari ekki af stað. Um leið og hross fá ekki beit í hólfum sínum fara þau á flæking og því er voðinn vís,“ segir Sigfús Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×