Skoðun

Kjaramál aldraðra efst á baugi

Björgvin Guðmundsson skrifar
Ég hef verið að fylgjast með umræðunni á Alþingi um fjárlagafrumvarpið. Nær því hver einasti þingmaður stjórnarandstöðunnar hefur í umræðunni lagt mesta áherslu á kjarabætur til handa öldruðum og öryrkjum. Margir stjórnarþingmenn hafa einnig rætt málið. Þetta mál er nú orðið aðalmál þingsins.

Um svipað leyti í fyrra var hins vegar ekki minnst á þetta mál á Alþingi. Hver er ástæðan? Hvað hefur breyst? Ástæðan er sú, að mönnum ofbýður hvernig stjórnvöld valta yfir aldraða og öryrkja. Það gengur fram af mönnum að lífeyrisþegar skuli ekki fá sambærilegar kjarabætur og aðrir í þjóðfélaginu.

Fréttablaðið hefur tekið forustu meðal fjölmiðla í því að birta reglulega greinar um kjaramál lífeyrisþega og nauðsyn þess að bæta kjör þeirra. Baráttan er ekki búin. Þegar þetta er ritað hafa leiðtogar stjórnarflokkanna báðir lýst því yfir, að engu verði breytt í kjaramálum aldraðra umfram það sem ákveðið var fyrir löngu, þ.e. að lífeyrisþegar á strípuðum bótum fengju á næsta ári rúmar 10.000 kr. eftir skatt (einhleypingar) í hækkun.

Það hefur verið reynt að afflytja umræðuna um kjör lífeyrisþega og blekkingum beitt. Þannig er því ávallt haldið fram, að lífeyrisþegar hafi fengið/fái jafnmiklar kjarabætur og launþegar.

Blekking

Þetta er rangt. Þetta er blekking. Lágmarkslaun hækkuðu um 14,5% 1. maí 2015. Ríkisstjórnin ætlar að hækka lífeyrinn um 9,7% hinn 1. janúar 2016. Það er átta mánuðum seinna en verkafólk fékk hækkun og það er mun lægri prósentuhækkun en hjá launafólki.

Sagt er, að þegar lífeyrisþegar séu búnir að fá hækkun á næsta ári verði lífeyrir þeirra orðinn hærri en lágmarkslaun. Það er ekki rétt nema að hluta til. Það eru aðeins þeir lífeyrisþegar, sem búa einir og fá heimilisuppbót, sem verða með hærri lífeyri en lágmarkslaun. Og sá hópur er aðeins lítið brot aldraðra og öryrkja.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×