Erlent

Norðmenn munu geta vísað hælisleitendum frá á landamærunum

Atli ísleifsson skrifar
Sylvi Listhaug, ráðherra innflytjendamála, og dómsmálaráðherrann Anders Anundsen.
Sylvi Listhaug, ráðherra innflytjendamála, og dómsmálaráðherrann Anders Anundsen. Vísir/AFP
Norska ríkisstjórnin kynnti í dag nýja stefnu sína í málefnum flóttafólks og hælisleitenda. Ríkisstjórnin leggur meðal annars til að mögulegt verði að visa öllum hælisleitendum frá þegar við landamærin. Er meðal annars vísað til að Svíar hafi þegar tekið upp sambærilegar takmarkanir.

Tillögurnar hafa þegar sætt nokkurri gagnrýni og segja talsmenn Kristilega þjóðarflokksins, eins samstarfsflokka stjórnarflokkanna, að tillögurnar muni erfiða aðlögun innflytjenda að norsku samfélagi.

Í frétt NRK kemur fram að samkvæmt tillögunum muni hælisletendur fyrst geta hlotið varanlegt landvistarleyfi að fimm árum liðnum, í stað þriggja, líkt og núgildandi reglur kveða á um. Gerð er krafa um að viðkomandi útvegi sér heimili, atvinnu eða skrái sig í nám, auk þess að ná munnlegu prófi í norsku.

Stjórnin herðir jafnframt reglur er varða möguleika á að fjölskylda og aðstandendur þeirra sem þegar hafa hlotið ríkisborgararétt flytji til landsins. Vernd sé tryggð öllum þeim sem eru undir átján ára, en aðrir þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði og þörf þeirra fyrir vernd prófuð.

Skilgreining á flóttamanni verður einnig þrengri, sem þýðir að færri eigi rétt á lífeyrisgreiðslum og félagslegum bótum. „Við verðum að sjá til þess að það verði ekki eins aðlagandi fyrir þá sem ekki hafa þörf fyrir vernd að koma til Noregs,“ sagði Sylvi Listhaug, ráðherra innflytjendamála, í morgun.

Norsk yfirvöld áætla að milli 10 og 100 þúsund flóttamenn muni koma til Noregs á næsta ári. „Þetta getur haft gríðarlegar afleiðingar fyrir norska velferðarkerfið í för með sér,“ sagði Listhaug og bætti við að innflytjendastefna Noregs verði nú ein sú strangasta í álfunni.

DN segir að norsk yfirvöld muni taka fingra- og fótaför af öllum þeim hælisleitendum sem koma frá löndum utan ESB og evrópska efnahagssvæðisins og verður upplýsingum ekki eytt fyrr en að tíu árum liðnum.

Ríkisstjórnin stefnir einnig á að taka upp verklag sem felur í sér að hælisleitendur fái inneignarkort í stað reiðufés. Þetta sé gert til að koma í veg fyrir að þeir sendi féð úr landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×