Sport

Broncos í úrslitakeppnina

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Varnarjaxlinn DeMarcus Ware með boltann sem hann stal í framlengingunni og tryggði síðan Broncos sigur í leiknum.
Varnarjaxlinn DeMarcus Ware með boltann sem hann stal í framlengingunni og tryggði síðan Broncos sigur í leiknum. vísir/getty
Denver Broncos tryggði sig í nótt inn í úrslitakeppni NFL-deildarinnar eftir sigur á Cincinnati Bengals, 20-17, í framlengdum leik.

Bengals missti boltann frá sér í framlengingunni og eftir þennan stolna bolta náði Broncos að skora vallarmark og tryggja sér sigur.

Broncos var í erfiðri stöðu fyrir leikinn og með tapi hefði verið hætta á að liðið myndi missa hreinlega af úrslitakeppninni. Tapið kemur þeim aftur á móti í annað sætið í Ameríkudeildinni og liðið gæti unnið Ameríkudeildina eftir allt saman. Sigur gegn Chargers um næstu helgi sér til þess að liðið vinnur sinn riðil og fær frí í 1. umferð úrslitakeppninnar.

Cincinnati hefði tryggt sér frí í 1. umferð úrslitakeppninnar með sigrinum en þarf nú að vinna sinn leik gegn Ravens og vonast eftir því að Broncos tapi svo liðið fái frí.

Fríið myndi hjálpa liðinu mikið því aðalleikstjórnandi liðsins, Andy Dalton, verður ekki búinn að ná sér af meiðslum er úrslitakeppnin hefst.

Þessi úrslit gera það einnig að verkum að Indianapolis Colts á enn möguleika á sæti í úrslitakeppninni. Þessi úrslit þýða líka að Pittsburgh Steelers þarf að vinna Cleveland um næstu helgi og treysta á sigur Buffalo gegn NY Jets til að komast í úrslitakeppnina.

Nokkuð flókin staðan fyrir lokaumferðina í NFL-deildinni um næstu helgi.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×