Innlent

Þakplötur fuku af verkstæði á Egilsstöðum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frá vettvangi á Egilsstöðum í nótt.
Frá vettvangi á Egilsstöðum í nótt. mynd/kjartan benediktsson
Þak fauk af byggingu á Egilsstöðum í nótt og var björgunarsveitin Hérað kölluð út vegna þessa. Þakið fauk af í stórum flekum og lenti á nærliggjandi bifreiðum. Veðurofsinn var slíkur að ekki var annað hægt að gera en að tryggja að það sem þegar hafði fokið ylli meiri skemmdum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg.

Þakið var á byggingu sem hýsti verkstæði í bænum og mætti eigandi verkstæðisins einnig á staðinn til að skorða þakplötur og varna því að þær fykju. Ekki var talið óhætt að fara upp á þakið til að forða frekara foki.

Útlit er fyrir að sterkur vindstrengur hafi myndast við verkstæðið með fyrrgreindum afleiðingum en foktjóns varð ekki vart á öðrum svæðum á Héraði. Leiðindaveður er fyrir austan og hefur mikið rignt og hafa tilkynningar um vatnstjón borist.

Þá er björgunarsveitin á Dalvík einnig á fullu við að moka snjó af þaki heilsugæslu staðarins þar sem þak hennar er byrjað að leka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×