Örlög söngvarans Brynhildur Björnsdóttir skrifar 23. desember 2015 13:00 Bækur Egils sögur Páll Valsson og Egill Ólafsson Útgefandi: Forlagið Fjöldi síðna: 367 bls. Kápa: Alexandra Buhl Prentun: Oddi „Ég lýsi undrun minni yfir frábærri frammistöðu Egils Ólafssonar sem sannaði að hann er snjall kvikmyndaleikari,“ sagði Indriði G. Þorsteinsson rithöfundur, inntur í Vísi í desemberlok árið 1977 eftir því hvað honum hefði fundist um jólaleikrit Sjónvarpsins sem var Silfurtúnglið eftir Halldór Laxness í leikstjórn Hrafns Gunnlaugssonar. Þar fór Egill með hlutverk sjónvarpsstjörnunnar Feilans Ó. Feilan sem á eina minnisstæðustu krækjusetningu í íslensku sjónvarpsefni: „Sjáið þið mig? Ég sé ykkur?…?ekki.“ Þetta sama ár, 1977, komu út tvær helstu íslensku hljómplötur tuttugustu aldarinnar, Sturla með tónlistinni úr leikritinu Grænjaxlar sem gengið hafði fyrir fullu Þjóðleikhúsi leikárið á undan með Egil um borð og Á bleikum náttkjólum sem Spilverk þjóðanna vann með Megasi þannig að úr varð besta plata Íslandssögunnar, að mati þeirra dómnefnda sem hingað til hafa verið kvaddar saman. Það þótti því mörgum að bera í bakkafullan lækinn að ætla Agli að vera líka haldbær kvikmyndaleikari og mögulega efuðust einhverjir um að hann réði við hlutverkið. En hann átti eins og frægt er orðið eftir að sýna og sanna leikhæfileika sína árin á eftir, til að mynda í vinsælustu kvikmynd Íslandssögunnar, Með allt á hreinu, og þeirri sem bar hróður íslenskrar kvikmyndagerðar hvað víðast, Hrafninn flýgur. Þær kvikmyndir íslenskar eru reyndar færri en hinar, þar sem Egill Ólafsson hefur ekki komið við sögu. Þessi setning Feilans sem vitnað er í hér að framan er að mörgu leyti lýsandi fyrir upplifun hins almenna Íslendings af Agli Ólafssyni. Við höfum séð hann og heyrt í honum í næstum því hálfa öld og undrast yfir þeim endalausu hæfileikum sem hann virðist búa yfir en hann hefur samt verið frekar fjarlægur, uppi á sviði, bak við gler á skjá eða inni í útvarpinu, þó alltaf hafi hann nú samt virkað elskulegur og gefandi maður, svona í fjarlægðinni. Í Egils sögum er tilfinningin hins vegar eins og að sitja með honum og Páli Valssyni, skrásetjara sagnanna, á Mokka eða heima í stofu og fá að hlusta og spyrja og heyra af öllu því sem gerðist bak við tjöldin þegar uppáhaldsplöturnar eða vinsælustu kvikmyndirnar voru gerðar. Egill Ólafsson er afburðamaður bæði í tónlist og leiklist, um það er engum blöðum að fletta, en hann er líka góður sögumaður sem hefur frá mörgu að segja og gerir það einstaklega skemmtilega. Ekki skal gera lítið úr hlut Páls Valssonar sem skrásetur sögurnar af list og næmni, leyfir sögumanninum að njóta sín til fulls en kemur með ytra sjónarhorn, bætir í eyður og fyllir í ramma þegar svo ber undir. Sem miklum aðdáanda Spilverks þjóðanna, Þursaflokksins, Hrekkjusvína og Stuðmanna þótti mér sérstaklega vænt um að rekast reglulega á óbeinar tilvitnanir í texta sem ég þekkti, settar fram áreynslulaust og í takti en á þann hátt að þær opna enn aðra vídd inn í sögurnar, allt í einu fer lesandinn að raula lagið sem textabrotið er úr og tengja það við minningu eða mynd sem dregin er upp í textanum. Margar skemmtilegar mannlýsingar má finna í textanum sem og greiningar á sköpunarverkum Egils í ýmsu samhengi og ekki síst, og kannski það sem er dýrmætast, vangaveltur hans sjálfs um það að vera listamaður, með öllum þeim efa og sjálfsniðurrifi sem því fylgir. Einkum var í þessu samhengi gaman að lesa um tilfinningar hans í kringum endurkomu Þursaflokksins 2008 þar sem hann átti í miklum innri átökum. Því hættir oft til að gleymast að listamaðurinn hefur allt annað sjónarhorn á verkið en njótendur, því er kannski löngu lokið af hans eða hennar hálfu þó það lifi endalaust með aðdáendum sem fá aldrei nóg. En slík eru stundum örlög söngvarans. Þeir eru til sem fá aldrei nóg af Stuðmönnum, Spilverkinu eða Þursunum, ekkert frekar en sumir telja mögulegt að fá nóg af Bítlunum, og þeim er þessi bók mikill fengur. Hinir, sem finnst gaman að lesa góðar sögur, verða heldur ekki sviknir. Við, sem erum löngu hætt að undrast á Agli Ólafssyni, bíðum spennt eftir því sem hann leggur á borð með sér næst.Niðurstaða: Bók fyrir alla fjölskylduna og einhleypa. Menning Mest lesið Blaðasnápurinn Stefán Einar fórnar kampavínskóngstitlinum Lífið Frægir fjölguðu sér árið 2024 Lífið Hlaupársdagurinn þegar Ölfusá flæddi inn í Selfossbæ Lífið Innlit á æfingu Jólagesta: „Allt þarf að taka endi“ Tónlist Fékk Sigurbjörn Árna til að lýsa óhappi í vinnunni Lífið Fréttatía vikunnar: Lýðheilsa, ísbúð og álag Lífið Fékk bónorð í jólagjöf á tónleikum Paul McCartney Lífið Garðar málari og kvæntur yngstu ömmu landsins Lífið Prinsinn kom á undan Kónginum Lífið Forsetinn og viðskiptavinir fengu forsmekk að Vigdísi Lífið Fleiri fréttir Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira
Bækur Egils sögur Páll Valsson og Egill Ólafsson Útgefandi: Forlagið Fjöldi síðna: 367 bls. Kápa: Alexandra Buhl Prentun: Oddi „Ég lýsi undrun minni yfir frábærri frammistöðu Egils Ólafssonar sem sannaði að hann er snjall kvikmyndaleikari,“ sagði Indriði G. Þorsteinsson rithöfundur, inntur í Vísi í desemberlok árið 1977 eftir því hvað honum hefði fundist um jólaleikrit Sjónvarpsins sem var Silfurtúnglið eftir Halldór Laxness í leikstjórn Hrafns Gunnlaugssonar. Þar fór Egill með hlutverk sjónvarpsstjörnunnar Feilans Ó. Feilan sem á eina minnisstæðustu krækjusetningu í íslensku sjónvarpsefni: „Sjáið þið mig? Ég sé ykkur?…?ekki.“ Þetta sama ár, 1977, komu út tvær helstu íslensku hljómplötur tuttugustu aldarinnar, Sturla með tónlistinni úr leikritinu Grænjaxlar sem gengið hafði fyrir fullu Þjóðleikhúsi leikárið á undan með Egil um borð og Á bleikum náttkjólum sem Spilverk þjóðanna vann með Megasi þannig að úr varð besta plata Íslandssögunnar, að mati þeirra dómnefnda sem hingað til hafa verið kvaddar saman. Það þótti því mörgum að bera í bakkafullan lækinn að ætla Agli að vera líka haldbær kvikmyndaleikari og mögulega efuðust einhverjir um að hann réði við hlutverkið. En hann átti eins og frægt er orðið eftir að sýna og sanna leikhæfileika sína árin á eftir, til að mynda í vinsælustu kvikmynd Íslandssögunnar, Með allt á hreinu, og þeirri sem bar hróður íslenskrar kvikmyndagerðar hvað víðast, Hrafninn flýgur. Þær kvikmyndir íslenskar eru reyndar færri en hinar, þar sem Egill Ólafsson hefur ekki komið við sögu. Þessi setning Feilans sem vitnað er í hér að framan er að mörgu leyti lýsandi fyrir upplifun hins almenna Íslendings af Agli Ólafssyni. Við höfum séð hann og heyrt í honum í næstum því hálfa öld og undrast yfir þeim endalausu hæfileikum sem hann virðist búa yfir en hann hefur samt verið frekar fjarlægur, uppi á sviði, bak við gler á skjá eða inni í útvarpinu, þó alltaf hafi hann nú samt virkað elskulegur og gefandi maður, svona í fjarlægðinni. Í Egils sögum er tilfinningin hins vegar eins og að sitja með honum og Páli Valssyni, skrásetjara sagnanna, á Mokka eða heima í stofu og fá að hlusta og spyrja og heyra af öllu því sem gerðist bak við tjöldin þegar uppáhaldsplöturnar eða vinsælustu kvikmyndirnar voru gerðar. Egill Ólafsson er afburðamaður bæði í tónlist og leiklist, um það er engum blöðum að fletta, en hann er líka góður sögumaður sem hefur frá mörgu að segja og gerir það einstaklega skemmtilega. Ekki skal gera lítið úr hlut Páls Valssonar sem skrásetur sögurnar af list og næmni, leyfir sögumanninum að njóta sín til fulls en kemur með ytra sjónarhorn, bætir í eyður og fyllir í ramma þegar svo ber undir. Sem miklum aðdáanda Spilverks þjóðanna, Þursaflokksins, Hrekkjusvína og Stuðmanna þótti mér sérstaklega vænt um að rekast reglulega á óbeinar tilvitnanir í texta sem ég þekkti, settar fram áreynslulaust og í takti en á þann hátt að þær opna enn aðra vídd inn í sögurnar, allt í einu fer lesandinn að raula lagið sem textabrotið er úr og tengja það við minningu eða mynd sem dregin er upp í textanum. Margar skemmtilegar mannlýsingar má finna í textanum sem og greiningar á sköpunarverkum Egils í ýmsu samhengi og ekki síst, og kannski það sem er dýrmætast, vangaveltur hans sjálfs um það að vera listamaður, með öllum þeim efa og sjálfsniðurrifi sem því fylgir. Einkum var í þessu samhengi gaman að lesa um tilfinningar hans í kringum endurkomu Þursaflokksins 2008 þar sem hann átti í miklum innri átökum. Því hættir oft til að gleymast að listamaðurinn hefur allt annað sjónarhorn á verkið en njótendur, því er kannski löngu lokið af hans eða hennar hálfu þó það lifi endalaust með aðdáendum sem fá aldrei nóg. En slík eru stundum örlög söngvarans. Þeir eru til sem fá aldrei nóg af Stuðmönnum, Spilverkinu eða Þursunum, ekkert frekar en sumir telja mögulegt að fá nóg af Bítlunum, og þeim er þessi bók mikill fengur. Hinir, sem finnst gaman að lesa góðar sögur, verða heldur ekki sviknir. Við, sem erum löngu hætt að undrast á Agli Ólafssyni, bíðum spennt eftir því sem hann leggur á borð með sér næst.Niðurstaða: Bók fyrir alla fjölskylduna og einhleypa.
Menning Mest lesið Blaðasnápurinn Stefán Einar fórnar kampavínskóngstitlinum Lífið Frægir fjölguðu sér árið 2024 Lífið Hlaupársdagurinn þegar Ölfusá flæddi inn í Selfossbæ Lífið Innlit á æfingu Jólagesta: „Allt þarf að taka endi“ Tónlist Fékk Sigurbjörn Árna til að lýsa óhappi í vinnunni Lífið Fréttatía vikunnar: Lýðheilsa, ísbúð og álag Lífið Fékk bónorð í jólagjöf á tónleikum Paul McCartney Lífið Garðar málari og kvæntur yngstu ömmu landsins Lífið Prinsinn kom á undan Kónginum Lífið Forsetinn og viðskiptavinir fengu forsmekk að Vigdísi Lífið Fleiri fréttir Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira