Viðskipti innlent

Jafn margir gestir ofan í Bláa lónið þrátt fyrir stækkun

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Bláa lónið - fyrir stækkun.
Bláa lónið - fyrir stækkun. vísir/gva
Bláa lónið verður lokað frá 5. janúar til þess 22. sama mánaðar meðan unnið verður að stækkun lónsins. Meðan framkvæmdir standa yfir verður lónið tæmt, í fyrsta sinn frá árinu 1999.

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, sagði í samtali við Bítið í morgun að lónið verði stækkað um tæplega helming, úr 5000 fermetrum í 7000, í suðurátt að hraunkantinum.

„Við erum að stækka Bláa lónið og um leið nýta tækifærið til að endurnýja og bæta núverandi lón og sinna viðhaldi,“ sagði Grímur. Hann bætti við að það hafi verið löngu kominn tími á huga að endurbótum enda hafi lónið verið opið á hverjum einasta degi síðan það var opnað í núverandi mynd árið 1999.

Þó svo að lónið verði stækkað jafn mikið og raun ber vitni mun það þó ekki þýða að fleiri gestir geti heimsótt það í einu. Til þess þarf að stækka búningaaðstöðuna en það er ekki á dagskránni fyrr en í næsta áfanga framkvæmdanna. Búast má við því að honum ljúki árið 2017.

Að sögn Gríms er búist við að rúmlega milljón gestir heimsæki Bláa lónið á næsta ári, þrátt fyrir fyrrnefnda lokun. Um 900 þúsund manns sóttu lónið í ár og var yfirgnæfandi meirihluti erlendir ferðamenn.

Viðtalið við Grím, þar sem hann meðal annars lýsir því hvernig staðið verður að tæmingu lónsins, er hægt að hlusta á hér að neðan. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×