Innlent

Vitni lýsir ráninu í Landsbankanum

Birgir Olgeirsson og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Fjöldi fólks var inni í útibúi Landsbankans í Borgartúni þegar ræningjar réðust þar inn fyrr í dag og ógnuðu starfsfólki og viðskiptavinum með vopnum.

Ein þeirra sem var inni í bankanum var Jóhanna Þorbjargardóttir. „Ég stóð hjá gjaldkeranum og var að taka út. Allt  í einu heyrist: „Þetta er rán!“ eða eitthvað svoleiðis og öskur og læti. Þeir koma hlaupandi inn og hoppa yfir afgreiðsluborðið og ég hljóp bara í burtu og það reyndu allir að hlaupa í burtu eða beygja sig. Svo tóku þeir alla þá peninga sem þeir gátu, voru með læti, hristu gjaldkerann , svo bara fóru þeir,“ sagði Jóhanna í samtali við fréttastofu Stöðvar 2.

Spurð hvort þeir hafi verið vopnaðir sagðist hún hafa séð hníf en ekki geta séð vopnið sem hinn maðurinn var með. Annar þeirra var þó líklega vopnaður byssu. Jóhanna segir ræningjana hafa ógnað bæði viðskiptavinum og starfsmönnum bankans en fjöldi fólks var inni í bankanum á meðan ránið var framið, þar á meðal börn.

„Það var öllum rosalega brugðið,“ sagði Jóhanna. Lögreglan hélt eftir starfsfólki og viðskiptavinum í bankanum í dag og tók af þeim skýrslur. „Ég er bara búin að bíða hér, og gefa skýrslu og titra og skjálfa. Mér er bara verulega brugðið.“


Tengdar fréttir

Bíllinn úr bankaráninu fannst í Barmahlíð

Hvítur sendiferðabíll sem tveir menn notuðu við vopnað rán í útibúi Landsbankans í Borgartúni fannst yfirgefinn í Barmahlíð upp úr klukkan hálf þrjú í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×