Viðskipti innlent

Flugeldar hækka langt umfram verðlag

Samúel Karl Ólason skrifar
Hækkunin er mest á tertunum Örlygsstaðabardaga og Flóabardaga.
Hækkunin er mest á tertunum Örlygsstaðabardaga og Flóabardaga. Vísir/Vilhelm
Verð á flugeldum hjá björgunarsveitunum hefur hækkað langt umfram vísitölu neysluverðs á undanförnum árum og er hækkunin á tertum allt að 108 prósent. Hækkunin er sögð vera til komin vegna verðhækkunar frá Kína og bágrar stöðu Bandaríkjadals.

Jón Ingi Sigvaldason, markaðs- og sölustjóri Landsbjargar, segir álagningu björgunarsveitanna ekki hafa aukist. Þess í stað séu hækkanirnar að mestu leyti til komnar vegna gengis Bandaríkjadals. Nú sé til dæmis níu prósenta munur á Bandaríkjadal frá því í fyrra.

„Varan hefur ekki hækkað mikið frá Kína síðustu tvö ár, en hún hækkaði mikið þremur árum áður vegna launahækkana og annars í Kína, en hún hefur verið stöðug seinustu tvö ár,“ segir Jón.

Hækkunin er mest á tertunum Örlygsstaðabardaga og Flóabardaga, þar sem hún er rúm hundrað prósent frá árinu 2010. Flestir pakkar og tertur hafa þó hækkað um rúm 40 til 45 prósent. Frá desember 2010 til nóvember 2015 hefur vísitala neysluverðs hækkað um 17,1 prósent samkvæmt Verðlagsreiknivél Hagstofunnar.

Til hliðsjónar var notast við Flugeldablað Björgunarsveitarinnar Ársæls frá 2010 og Flugeldablað Landsbjargar 2015.

Fjölskyldupakkar:

Tralli úr 6.900 krónum árið 2010 í 9.700 krónur nú í ár. Hækkun: 41 prósent.

Troðni úr 11.900 í 16.900. Hækkun: 42 prósent.

Trausti úr 14.900 í 21.600. Hækkun: 45 prósent.

Trölli úr 21.900 í 30.900. Hækkun: 41 prósent.

Kappar:

Þórunn Hyrna: Úr 6.700 krónum árið 2010 í 9.700 nú í ár. Hækkun: 45 prósent. Árið 2010 var lengdin 40 sekúndur en hún hefur ekkert breyst.

Njáll á Bergþórshvoli úr 10.900 í 15.400. Hækkun: 41 prósent. Lengd 21 sek en engin breyting.

Grettir Ásmundarson úr 10.900 í 15.400. Hækkun: 41 prósent. Lengd 25 sekúndur 2010 og nú 27.

Egill Skallagrímsson úr 10.900 í 15.400. Hækkun: 41 prósent. Er 27 sek á lengd og hefur ekki breyst.

Gunnlaugur Ormstunga úr 16.900 í 23.900. Hækkun: 41 prósent. Var 40 sekúndur á lengd en er nú 27 sek.

Hallgerður Langbrók úr 8.900 í 12.600. Hækkun: 41,5 prósent. Lengd 25 sek og hefur ekki breyst.

Guðríður Þorbjarnardóttir úr 8.400 í 12.000. Hækkun: 43 prósent. Lengd 27 sek og hefur ekki breyst.

Bardagar:

Örlygsstaðabardagi: Úr 27.900 krónum árið 2010 í 57.000 2015. Hækkun: 104 prósent. Árið 2010 var lengdin 91 sekúnda og þyngdin 23 kíló. Nú er tíminn 43 sekúndur og þyngdin 24 kíló.

Flóabardagi úr 27.900 í 58.800. Hækkun: 108 prósent. 50 sek að lengd 2010 og þyngd 25 kíló. Nú er tíminn 40 sekúndur og þyngdin 19 kíló.

Ingólfsbardagi: Úr 27.900 í 35.200. Hækkun: 26 prósent. 90 sek að lengd 2010 og 26 kg. Nú 47 sek og 25 kg.

Þverárbardagi: Úr 25.900 í 36.700. Hækkun: 42 prósent. 70 sek að lengd 2010 og 15 kg. Nú 25 sek og 17 kg.

Breiðabólstaðabardagi: Úr 24.900 í 38.400. Hækkun: 54 prósent. 70 sek að lengd 2010 og 15 kg. Nú 45 sek og 16 kg.

Víðinesbardagi: Úr 24.900 í 35.200. Hækkun: 41 prósent. 57 sek að lengd 2010 og 16 kg. Nú 30 sek og 17 kíló.


Tengdar fréttir

Óbreytt verð á flugeldum þrátt fyrir fríverslun

Flugeldasalar segja verð á flugeldum standa í stað milli ára. Ástæðan sé meðal annars aukinn flutningskostnaður. Fríverslunarsamningurinn við Kína tók gildi í byrjun júlí og var tíu prósenta tollur á flugelda lagður af.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×