Erlent

Evrópusambandið býður Afríku aðstoð vegna flóttafólks

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Angela Merkel ásamt öðrum þátttakendum á leiðtogafundinum á Möltu.
Angela Merkel ásamt öðrum þátttakendum á leiðtogafundinum á Möltu. Fréttablaðið/EPA
Evrópusambandið ætlar að verja milljörðum evra til að aðstoða ríki í norðanverðri Afríku í von um að eitthvað dragi úr flóttamannastraumnum þaðan.

Þetta var samþykkt á leiðtogafundi á Möltu í gær, en fundinn sóttu leiðtogar bæði Evrópuríkja og Afríkuríkja. Leiðtogarnir segjast með þessu ætla að ráðast að rótum vandans.

Meiningin var að 1,8 milljarðar evra kæmu úr sjóðum Evrópusambandsins, en aðildarríki ESB ættu síðan að leggja fram jafn háa upphæð á móti. Eitthvað gekk það treglega, því einungis fengust vilyrði fyrir 72 milljörðum evra frá aðildarríkjunum. Enn vantar því rúmlega 1,7 milljarða til þessa verkefnis.

Um það leyti sem leiðtogafundinum lauk hófu Svíar tímabundið landamæraeftirlit á brúnni milli Danmerkur og Svíþjóðar. Tilgangurinn er að stöðva flóttafólk, sem er á leiðinni frá Danmörku yfir til Svíþjóðar, þar sem Svíar telja sig ekki ráða öllu lengur við fjöldann. Þjóðverjar eru sömuleiðis að herða reglur sínar um móttöku flóttafólks, þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar Angelu Merkel kanslara um að Þjóðverjar vilji taka á móti öllum sem þurfa á skjóli að halda.

Það sem af er þessu ári hafa nærri 800 þúsund manns komið til Þýskalands með ósk um hæli. Þjóðverjar reikna með að fyrir árslok verði fjöldinn kominn upp í milljón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×