Erlent

Sögð hafa misnotað opinbert fé

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Fyrrverandi formaður grænlensku landstjórnarinnar sagði af sér síðastliðið haust vegna spillingarásakana.
Fyrrverandi formaður grænlensku landstjórnarinnar sagði af sér síðastliðið haust vegna spillingarásakana. fréttablaðið/EPA
Þrír grænlenskir stjórnmálamenn, þau Aleqa Hammond, Kuupik Kleist og Steen Lynge, hafa verið kærðir fyrir að hafa misfarið með opinbert fé.

Fjórir íbúar á Grænlandi kærðu þau til lögreglunnar og segja stjórnmálamennina seka um blekkingar, fjárdrátt og umboðssvik. Upphæðirnar nema samtals rúmlega 270 þúsund dönskum krónum, sem samsvarar fimm og hálfri milljón íslenskra króna. Grænlenska útvarpið KNR skýrir frá þessu á fréttavef sínum.

Aleqa Hammond situr á grænlenska landsþinginu fyrir Siumut-flokkinn og var formaður landstjórnarinnar í rúmlega ár frá 2013 til 2014. Hún sagði nokkuð skyndilega af sér síðastliðið haust eftir að fram komu ásakanir um að hún hefði látið ríkissjóð greiða flugferðir og hótelgistingu fyrir sig.

Steen Lynge er þingmaður Atassut-flokksins og er sakaður um að hafa tvisvar sinnum tekið fjölskyldu sína með í opinberar ferðir. Kuupik Kleist sat á þingi fyrir IA-flokkinn og var formaður landstjórnar árin 2009 til 2013 og er sagður enn eiga ógreidda skuld sína við ríkissjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×