Innlent

Skartgriparán í Hafnarfirði: Annar maður handtekinn með afbrotaferil og fíkniefnatengda sögu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gullsmiðjan stendur við Lækjargötu í Hafnarfirði. Starfsmaður á sextugsaldri flúði ræningjanna sem voru grímuklæddir og vopnaðir öxi.
Gullsmiðjan stendur við Lækjargötu í Hafnarfirði. Starfsmaður á sextugsaldri flúði ræningjanna sem voru grímuklæddir og vopnaðir öxi. Vísir/Vilhelm
Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið handtekinn í tengslum við rannsókn lögreglu á hrottalegu ráni úr Gullsmiðjunni í Hafnarfirði síðdegis í gær. Framundan er yfirheyrsla yfir honum. Of snemmt er að segja til um aðild hans að málinu.

Annar þeirra sem ruddist inn í verslunina í gær var handtekinn í Keflavík í gærkvöldi. Sá var vopnaður loftbyssu og skaut í átt að lögreglu. Farið verður fram á gæsluvarðhald yfir honum í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Hafnarfirði er málið nokkuð umfangsmikið. Ránið virðist hafa verið vel skipulagt en flóttabíll var skilinn eftir við Grindavíkurafleggjarann á Reykjanesbraut um hálftíma eftir ránið. Hefur lögregla biðlað til almennings um aðstoð er varðar akstur bílsins, sjá hér.

Eiga báðir afbrotasögu að baki

Mennirnir tveir sem hafa verið handteknir eru báðir íslenskir, á svipuðum aldri og þekkjast. Umtalsvert magn sterkra fíkniefna fannst á þeim sem handtekinn var í Keflavík í gær og sömuleiðis fundust frekari efni við húsleit í dag. Báðir mennirnir eiga að baki afbrotaferil og fíkniefnatengda sögu.

Lögregla vinnur nú hörðum höndum að rannsókn málsins en nokkrar ábendingar hafa borist sem verið er að vinna úr meðfram vitnisburði og öðrum gögnum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×