Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, var að sjálfsögðu mjög svekktur eftir að Manchester United liðið datt út úr Meistaradeildinni í kvöld.
Manchester United komst í 1-0 í upphafi leiks en tapaði 3-2 á móti Wolfsburg og þarf að sætta sig við það að byrja að spila í Evrópudeildinni eftir áramót.
„Það er erfitt að átta sig á þessum úrslitum. Ég er ánægður með að hafa náð að skora en mjög ósáttur að við skulum í tvígang fá á okkur mark aðeins nokkrum mínútum eftir að við skorum. Ég verð að skoða það betur hvað gerðist en vanalega erum við í góðum málum í slíkri stöðu," sagði Louis van Gaal við BBC.
Sjá einnig:Man. United í Evrópudeildina en Man. City vann riðilinn
„Ég sagði það í upphafi að þetta væri jafn riðill og það má sjá það á úrslitunum úr okkar leikjum sem og í öðrum leikjum í riðlinum," sagði Van Gaal en Wolfsburg og PSV Eindhoven komust áfram í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar.
„Ég verð að segja það að við höfðum ekki heppnina með okkur í þessum leik og þá er ég að tala um ákvarðanir dómarans. Það var líka þannig í fyrsta leiknum okkar á móti PSV Eindhoven. Þegar riðillinn er svona jafn þá geta svona ákvarðanir ráðið því hvort þú farir áfram eða ekki," sagði Louis van Gaal.
Sjá einnig:Manchester United tapaði í Þýskalandi
Manchester United tapaði tveimur leikjum í riðlinum, í fyrstu umferð á móti PSV Eindhoven og svo í þeirri síðustu á móti Wolfsburg.
Jesse Lingard virtist jafna metin fyrir Manchester United undir lok fyrri hálfleiks þegar skot hans utan af kanti sigldi alla leið í markið. Dómararnir dæmdu hinsvegar markið af eftir dágóðan umhugsunartíma, vegna rangstöðu væntanlega á leikmenn United-liðsins sem stóðu fyrir framan markvörðinn.
Van Gaal kenndi dómaranum um tapið í kvöld
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið




„Titilbaráttan er búin, Liverpool verður meistari“
Enski boltinn


„Verður besta tímabil sem við höfum séð frá leikmanni“
Enski boltinn


„Spiluðum mjög vel í dag“
Enski boltinn

