Erlent

Pistorius sleppt gegn tryggingu á meðan hann bíður refsingar

Atli Ísleifsson skrifar
Dómari mun greina frá ákvörðun refsingar þann 18. apríl á næsta ári.
Dómari mun greina frá ákvörðun refsingar þann 18. apríl á næsta ári. Vísir/AFP
Suður-afríska spretthlauparanum Oscar Pistorius hefur verið sleppt gegn tryggingu á meðan hann bíður eftir að dómari kveður upp dóm yfir honum.

Dómari dæmdi í síðustu viku Pistorius fyrir morð á unnustu sinni, Reevu Steenkamp, árið 2013 en hann hlaut fimm ára dóm fyrir manndráp af gáleysi í október á síðasta ári.

Í frétt BBC kemur fram að Pistorius verði að lágmarki dæmdur til fimmtán ára fangelsisvistar eftir að dómnum var breytt. Dómari mun greina frá ákvörðun refsingar þann 18. apríl á næsta ári.

Dómarinn sagði að almenningi stafaði ekki hætta af Pistorius og ákvað því að honum skyldi sleppt gegn tryggingu.

Pistorus mun áfram vera í stofufangelsi á heimili frænda síns þar til tilkynnt verður um refsingu. Hann mun bera sérstakan sendi á ökkla, auk þess að honum var gert að afhenda vegabréf sitt.

Pistorius verður heimilt að yfirgefa heimili frænda síns milli klukkan sjö á morgnana og til hádegis en má ekki fara lengra en tuttugu kílómetra frá heimilinu.

Lögmaður Pistorius greindi frá því í morgun að dómnum yrði mögulega áfrýjað til stjórnlagadómstóls landsins.


Tengdar fréttir

Dómi Pistorius breytt í morð

Áfrýjunardómstóll Suður Afríku úrskurðaði að fyrri dómurinn yfir Pistorius hafi verið gallaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×