Lífið

Hannaði hljóðeinangrandi risastól

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Gróa í stólnum sínum Into the Blue
Gróa í stólnum sínum Into the Blue Vísir
Húsgagnahönnuðurinn Gróa Ólöf Þorgeirsdóttir útskrifaðist í desember úr húsgagnahönnun frá VIA University College í Danmörku. Henni var boðið, ásamt nokkrum öðrum nemendum að taka þátt í einni af stærstu húsgagnasýningum í Svíþjóð, Stockholm Furniture Fair. 

Stóllinn sem Gróa sýndi heitir Into the Blue og er heldur óvenjulegur. „Ég er rosalega hrifin af skúlptúr og öðruvísi húsgögnum. Það sem er sérstakt við hann er að hann er hljóðeinangraður, þannig að þú getur kúplað þig út þótt þú sért í stóru rými. Ég vildi líka gera stól sem var ekki bara stóll heldur upplifun,“ segir Gróa.

Innblástur af stólnum fékk hún frá skeljum og litinn tengir hún við hafið. Hún segist hafa fengið þó nokkra athygli út á stólinn og margir viljað prófa og jafnvel kaupa hann. „Það spurðu mjög margir hvort hann væri til sölu, en ég hef ekki enn sett verð á hann,“ segir Gróa.

Meðal þeirra sem sýndu honum áhuga er fyrirtæki sem sérhæfir sig í hljóðeinangrun. „Það er spennandi og nú er bara að mynda sér tengslanet. Ég fer næst með hann á sömu sýningu í Mílanó í apríl, við sjáum hvað kemur út úr því,“ segir Gróa. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×