Fótbolti

Blatter þorir ekki í kappræður fyrir forsetakjör FIFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sepp Blatter, forseti FIFA.
Sepp Blatter, forseti FIFA. Vísir/Getty
Sepp Blatter, forseti FIFA, var ekki tilbúinn að taka þátt í kappræðum fyrir forsetakjör FIFA en þrír aðilar keppa við hann um embættið í komandi forsetakosningum. BBC og Sky ætluðu að standa sameiginlega að kappræðunum.

Hinir þrír forsetaframbjóðendurnir Ali Bin Al Hussein prins, Michael van Praag og Luis Figo, voru allir klárir en aðeins ef að allir fjórir frambjóðendurnir tækju þátt.

Ali Bin Al Hussein er forseti jórdanska knattspyrnusambandsins, Michael van Praag er forseti hollenska knattspyrnusambandsins og Luis Figo er fyrrum leikmaður Barcelona og Real Madrid sem og fyrrum bæði besti og dýrasti knattspyrnumaður heims.

Forsetakosningarnar fara fram 29. maí næstkomandi í Zürich í Sviss en Sepp Blatter er að reyna vinna sér inn sitt fimmta kjörtímabil í röð. Blatter hefur verið forseti FIFA frá árinu 1998 en hann er orðinn 79 ára gamall.

BBC og Sky voru ekki búin að ákveða staðsetningu eða uppbyggingu umræðnanna en spurningarnar áttu meðal annars að koma frá knattspyrnuáhugafólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×