Körfubolti

Sigur Stólanna á Haukum sá stærsti í níu ár

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Emil Barja í leiknum í Síkinu.
Emil Barja í leiknum í Síkinu. Vísir/Auðunn
Tindastóll fór frábærlega af stað í undanúrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta á þriðjudagskvöldið þegar liðið valtaði yfir Hauka, 94-64, í Síkinu á Sauðárkróki.

Þessi 30 stiga sigur er sá stærsti í fyrsta leik í undanúrslitum úrvalsdeildar karla í níu ár eða síðan Njarðvík pakkaði KR saman með 36 stigum í Ljónagryfjunni í undanúrslitum árið 2006.

Þar fór Jeb Ivey á kostum í liði Njarðvíkur og skoraði 26 stig og gaf 9 stoðsendingar og þeir Friðrik Stefánsson og Jóhann Árni Ólafsson skoruðu fimmtán stig hvor. Enginn úr sigurliði Njarðvíkur spilaði með liðinu á þessu tímabili.

Ef uppskriftin er sú sama hjá Tindastóli og Njarðvík verður liðið Íslandsmeistari, en Njarðvík kláraði KR, 3-1, og lyfti svo Íslandsbikarnum í Borgarnesi eftir að hafa klárað Skallagrím í fjórða leik.

Njarðvík var þó vissulega besta liðið í deildinni það árið og varð einnig deildarmeistari, en komist Tindastóll í úrslitaeinvígið eru miklar líkur á að það mæti ríkjandi Íslands- og deildarmeisturum KR.

Grindavík og KR voru nálægt því að vinna 30 stiga sigra í fyrsta leik undanúrslitanna árið 2009. KR lagði þá Keflavík að velli, 102-74, í DHL-höllinni en Grindavík vann sigur á Snæfelli, 110-82, í Röstinni. Báðir voru þetta 28 stiga sigrar.

KR kláraði sitt einvígi 3-0, en Grindavík afgreiddi Snæfell í fjórum leikjum áður en liðin mættust í einni eftirminnilegustu úrslitarimmu síðari ára sem endaði í ótrúlegum oddaleik í Vesturbænum. KR varð Íslandsmeistari með Jón Arnór Stefánsson í fararbroddi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×