Innlent

Pepaj fjölskyldan grét af gleði þegar hún fékk fréttirnar

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Albönsku fjölskyldurnar tvær sem sendar voru úr landi í liðinni viku fá íslenskan ríkisborgararétt og koma hingað í janúar. Önnur fjölskyldan segist vera gríðarlega þakklát og að fréttirnar séu besta jólagjöf sem Kevi sonur þeirra hefði getað fengið.

Það vakti vægast sagt mikla reiði í samfélaginu tvær fjögurra manna albanskar fjölskyldur voru sendar úr landi í lögreglufylgd í liðinni viku. Í báðum fjölskyldum eru langveik börn, þeir Kevi, sem er með ólæknandi slímseigjusjúkdóm, og Arjan, sem er með hjartagalla.

Fjölskyldurnar sóttu um ríkisborgararétt á þriðjudag og í dag varð ljóst að af því yrði.

Hermann Ragnarsson var að vonum ánægður með fréttirnar en hann unnið baki brotnu að því undanfarna daga að hjálpa fjölskyldunum að komast aftur til landsins. Fréttamaður hitti hann þegar hann var við það að hringja í Pepaj fjölskylduna á Skype með aðstoð túlks til að segja þeim gleðifréttirnar.

Fjölskyldan segir fréttirnar hafa komið sér mikið á óvart. Þau segjast vera þakklát íslensku þjóðinni og að þetta sé besta jólagjöf sem Kevi litli hefði getað fengið. Þau hlakka mikið til að koma aftur til Íslands en á meðan vinnur Hermann að því að finna þeim húsnæði og annað í tengslum við komuna sem er áætluð tíunda janúar. Hann hefur því sett af stað söfnun fyrir fjölskyldurnar sem hægt er að leggja lið hér. 

Hægt er að sjá viðbrögð fjölskyldunnar í spilaranum hér fyrir ofan. 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×