Lífið

Æfa björgun í Rússlandi

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Tíu ungmenni og fimm umsjónarmenn eru í íslenska hópnum. Helena er önnur frá hægri.
Tíu ungmenni og fimm umsjónarmenn eru í íslenska hópnum. Helena er önnur frá hægri. Mynd/ Otti Rafn Sigmarsson
„Hópurinn okkar er kröftugur og vekur athygli fyrir félagslega færni og góða frammistöðu á æfingum,“ segir Helena Dögg Magnúsdóttir. Hún er í fararstjórn hóps úr unglingadeildum Landsbjargar sem er í Rússlandi að æfa björgun mannslífa.

Þrír fullorðnir Íslendingar kenna á námskeiðinu sem sótt er af ellefu þjóðum, tveir fylgja íslenska hópnum.

„Við erum í liði með Kirgistan og Síberíu og okkar krakkar hafa túlka. Þeir hafa spreytt sig á björgun úr vatni og úr hárri byggingu sem þeir sigu niður í. Í dag var æfing í flugvéla-, þyrlu- og lestarslysum. Fjallabjörgun er á dagskrá og á fimmtudag verður 14 klukkustunda rústabjörgun þar sem allar þátttökuþjóðir vinna saman. Fólk hér er undrandi á hversu mikið okkar fólk kann, hvað það er agað og öryggisbúnaðurinn fínn,“ segir Helena.

Æfingasvæðið nefnist Noginsk, það er notað af rússneska hernum og almannavörnum, að sögn Helenu.

„Við erum um 90 kílómetra fyrir utan Moskvu en það tók okkur tæpa fjóra tíma að komast hingað, umferðarteppan var slík. Til að komast áfram keyrðum við úti í kanti í lögreglufylgd. Það var nokkuð merkileg upplifun fyrir venjulega íslenska unglinga.

Föstudagurinn er menningardagur, þá verður Moskva skoðuð.“



Þeir sem vilja fylgjast með hópnum geta gert það á fésbókarsíðunni rústahópur unglingadeildar SL






Fleiri fréttir

Sjá meira


×